Sultugerð fyrir byrjendur
Bláberjasulta og rifsberjahlaup. Mynd úr einkasafni. |
Sultugerð er eitthvað sem mig hefur lengi langað að
prófa. Ég er alin upp á heimili þar sem
allskonar ber, grænmeti og ávextir eru ræktaðir og hef horft á foreldra mína og
ættingja gera sultur og fleira úr eigin hráefnum. Í ár ákvað ég að taka mig til
og fara að læra að gera mína eigin sultu. Hugmyndin kom þegar ég frétti að það
væru mikið af bláberjum við sumarbústaðinn okkar. Ég nældi mér því í eitt og
hálft kíló af íslenskum bláberjum og eftir að hafa gert eina bláberjaostaköku
og borðað skyr með bláberjum fór ég í tilraunaeldhúsið.
Mynd úr einkasafni. |
Rifsberin voru þá illa sprungin en sykurinn vel bráðinn, þannig þetta leit
meira út eins og sósa en hlaup. Ég reyndi að laga hlaupið með því að hækka og
lækka hitann og bæta við einhverju sterkjudufti sem ég átti. Sterkjuduftið
hleypti blöndunni aðeins en skildi eftir sig hvíta flekki sem ég neyddist til
að veiða aftur upp úr, já þetta var farið að verða svolítið eins og hjá fimm
ára krakka að drullumalla! Ég endaði á
því að slökkva á eldavélinni, setja lok á pottinn og senda ömmu neyðarkall um
hjálp. Mig grunar að ömmu minni hafi nú bara verið svolítið skemmt yfir þessum klaufagangi
í nöfnu sinni, en hún benti mér á að ég hefði átt að setja stilkana með í
pottinn. Þar sem pjattrófan ég hafði óvart hreinsað stilkana af og hent beint í
ruslið var mér ráðlagt að bæta rauðu melatíni út í og nota sultunarsykur í
næstu tilraun. Melatín má setja eftir að hitt er komið í pottinn og farið að
malla og ég dreif mig því út í búð að kaupa það daginn eftir. En þegar heim var
komið og ég tók lokið af pottinum blasti við mér ágætis rifsberjahlaup. Það
hafði eitthvað gerst í pottinum yfir nótt, og eina sem ég þurfti að gera til að
laga hlaupið var að bæta við smá meiri vatni og leyfa berjunum að springa
aðeins meira ásamt því að veiða upp restina af sterkjuduftinu, svo það liti
ekki út eins og ég hefði misst kókaín ofan í pottinn!
Næsta tilraun með rifsberjahlaup gekk mun betur, enda
fylgdi ég ráðleggingum ömmu minnar og notaði sultunarsykur, sem ætti að vera
nokkurn veginn „idiot proof“ fyrir byrjendur.
Hér á eftir koma uppskriftir að bláberjasultu og
rifsberjahlaupi fyrir byrjendur ásamt upplýsingum um meðhöndlun áhalda og hleypiefnis.
Krukkurnar
Fyrsta sem þarf að huga að í sultugerð eru krukkurnar. Ég
á yfirleitt nóg af krukkum enda hendi ég ekki krukkum utan af sultum, mauki og
öðru sem ég kaupi fyrir matargerð. En það er líka hægt að kaupa krukkur í ýmsum
verslunum ef þú átt þær ekki til, s.s. Byko eða Byggt og búið svo dæmi séu
nefnd.
Glerkrukkurnar þurfa að vera hreinar þegar sultan er sett
út í og því þarf að hreinsa þær vel. Ég tók krukkurnar mínar niður úr
eldhússkápnum, fyllti þær af vatni og slatta af matarsóda og lét standa yfir
nótt. Matarsódi dregur í sig lykt og bragð og því fínn í að hreinsa t.d.
krukkur utan af tómatmauki.
Eftir að krukkurnarhöfðu staðið hæfilega lengi skolaði ég
þær og hreinsaði utan á þeim með vatni og sítrónu til að ná límmiðajukkinu af.
Síðan setti ég vatn í pott, raðaði lokum ofan í og hvolfdi krukkunum yfir.
Leyfði þeim svo að sjóða og hélt vatninu heitu á meðan ég gerði sultuna, því
krukkurnar þurfa að vera heitar þegar sultan er sett ofan í. Leiðbeiningar varðandi
sótthreinsun krukka fann ég hér.
Hleypiefni, hvað er nú það?
Fyrsta hindrunin sem ég mætti við sultugerðina var hleypiefni.
Ég hef séð aðra klúðra sultum einmitt út af hleypinu en var ekki viss hvort ég,
fátæki námsmaðurinn, ætti að vera að slæpast út í búð að kaupa hleypiefni sem
ég nota svo kannski aldrei aftur. Það er svo misjafnt hvað fólk segir um
hleypiefni og hvort nota eigi það eða ekki. Eftir dálitla rannsóknarvinnu komst
ég að því að ber innihalda mismikið af náttúrulegu hleypiefni. Rifsber þurfa ekki hleypiefni við sultugerð en í tilfelli bláberja
er betra að nota smá hleypiefni, eða hafa a.m.k. eitthvað af grænjöxlum með í
sultunni. Það er nefnilega sykur, hleypi og súra sem hleypa sultunni. Fyrir þau
ykkar sem hafið aldrei gert sultu eða séð sultugerð þá er sulta sem ekki nær að
hleypa meira eins og sósa eða súpa. En mér hafði yfirsést að tína grænjaxlana og
hreinsaði óvart stilkana af rifsberjunum. Þar sem ég átti bara 420g af bláberjum
eftir taldi ég algjöran óþarfa að vera að eyða pening í hleypiefni sem ég nota
svo kannski bara pínulítið af, enda þarf t.d. bara eina teskeið af rauðu
melatín á móti kílói af bláberjum. En þegar fyrri tilraun af rifsberjeahlaupinu
klikkaði neyddist ég til að kaupa melatín, til þess eins að uppgötva að ég
þurfti þess í rauninni ekki.
Í tilfelli bláberja fann ég út eftir dálítil heilabrot og
enn meiri rannsóknarvinnu ásamt því að spyrja reynsluboltana í fjölskyldunni og
á netinu að sítrónusafi dugar í stað hleypiefnis, sem er algjör snilld því ég
nota sítrónur mikið. Niðurstaðan var því að setja saman uppskrift af því sem ég
átti til í skápnum og útkoman var frábær. Svo þið getið gleymt hleypiefnum í
pakka, bæði fyrir rifsber og bláber, nema þið klúðrið sultunni rækilega.
Bláberjasulta
Fyrsta sultan sem ég gerði var bláberjasulta. Hún kom
ótrúlega vel út!
Ath. Þessi uppskrift dugar í tvær litlar krukkur eða eina
stóra, hlutfall sykurs er ca. helmingur á móti berjum og í kílói af berjum er
notaður ca 1 – 2 msk sítrónusafi. Magnið fer svo auðvitað eftir smekk en ég er
þessi týpa sem gólar „more is more!“ í eldhúsinu, það skemmir nú varla að setja
meira af sykri eða sítrónu!
Innihald
420g bláber
210g sykur
1 msk sítrónusafi
Smá vatn
Aðferð
Allt sett í pott og soðið á meðalhita þar til berin
springa og sykurinn leysist upp. Sultan ætti að þykkna eftir því sem líður og vatnið leysist upp, vatnið er eiginlega
bara til að sultan brenni ekki við.
Þetta er smá þolinmæðisvinna og alls ekki vitlaust að hræra í af og til til að
brjóta niður klessurnar.
Krukkurnar eru síðan veiddar upp úr heita vatninu og heitri
sultunni hellt út í. Þurrka þarf slettur
af börmunum og loka krukkunum eins fljótt og hægt er. Ef krukkunum er lokað
strax myndast loftsamsetning sem lengir endingartíma sultunnar þannig að það
þarf engin rotvarnarefni. 100% náttúruleg uppskrift og svooo góð!
Sultunni er svo bara leyft að standa og kólna áður en henni er skellt
inn í ísskáp. Ég merkti krukkurnar svo þegar þær voru orðnar kaldar, það má
auðvitað leika sér með merkingarnar en ég var ekkert að tvínóta við hlutunum
heldur skellti bara merkimiðunum á og merkti „Bláberjasulta“.
Rifsberjahlaup
Þessa uppskrift fékk ég frá ömmu minni eftir eina
misheppnaða tilraun að gera
rifsberjahlaup. Hún kom mjög vel út og ég mæli því klárlega með henni fyrir
byrjendur.
Innihald
800g sultunarsykur
1 kg rifsber
2 dl vatn
Aðferð
Allt sett í pott og stillt á meðalhita. Skiptir engu máli
hvað fer fyrst ofan í pottinn, þetta blandast allt saman á endanum.
Sjóðið þar til berin eru vel sprungin og sykurinn bráðinn. Til að finna út úr því hvort hlaupið
sé tilbúið er t.d. hægt að setja örlítið af því á disk og athuga áferðina ásamt
því að halla diskinum á hliðarnar og sjá hvort hlaupið lekur i allar áttir eða
ekki. Ef áferðin er að lúkka og hlaupið er ekki að leka út um allt eins og vatn
þá er þetta líklega tilbúið.
Eins og með bláberjasultuna þá er rifsberjahlaupið sett
heitt í heitar glerkrukkur og þeim lokað eins fljótt og kostur er. Sultunni er
síðan leyft að kólna áður en henni er skellt í ísskáp. Vegna þess hve magn
sykurs er mikið í þessari uppskrift þarf ekki endilega að geyma hlaupið í kæli
fyrr en krukkan er opnuð aftur og því má geyma hlaupið í eldhússkáp ef kælirinn
er fullur.
Ummæli
Skrifa ummæli