Að biðja um aðstoð
Slauga á æfingu |
Litli æfingarsalurinn var fullur af fólki í íþróttafötum að
gera sig til fyrir fyrsta tímann í grunnnámskeiðinu. Rödd þjálfarans glumdi er
hún gerði sitt besta til að útskýra allar æfingarnar í bak og fyrir. Ég elti hina
og gerði mitt besta til að gera æfingarnar. En þá fóru allir allt í einu að
hoppa á kassa og gera burpeas og ég sat eftir í stólnum mínum og vissi ekki
hvað ég ætti að taka til bragðs. Á endanum neyddist ég til að staldra við og
biðja um hjálp.
„Þú gerir bara það sem þú getur,“ sagði þjálfarinn þegar ég
loks hafði mig í að ræða við hana „svo máttu alltaf láta vita ef þú vilt einhverja
aðstoð eða aðlögun.“
Það getur stundum verið þreytandi að þurfa að biðja sífellt
um hjálp. En stundum er bara ekkert annað í stöðunni, annaðhvort er það hjálp
eða ekki hjálp. Hefði ég ekki beðið þjálfarann um hjálp á fyrstu CrossFit-æfingunni
hefði ég líklega hætt að æfa strax. En ég vildi það ekki, enda fannst mér þetta
mjög spennandi íþrótt. Ég fékk því eigin þjálfara fyrstu vikurnar og lærði á
allar æfingarnar. Á sama tíma lærði ég að þekkja eigin mörk. Það er mjög mikilvægt
að þekkja eigin mörk, sérstaklega í greinum eins og þessum, annars gæti orðið
stórslys.
Ég er nefnilega með mjög lélegt jafnvægi og þarf að nota
hjólastól. Ekki það að það sé neitt hræðilegt, enda erum við allskonar. En ég
þarf stundum að fara óvenjulegar leiðir til að ná markmiðum mínum og til þess
þarf´ég að viðurkenna hver ég er og biðja um hjálp þegar ég þarf. Það er nú
svosem ekkert að því. En vandamálið er að ekki allir gera það og sumir
hreinlega lifa í afneitun við eigin fatlanir.
Ég hefði líklega aldrei komist í gegnum grunn- og menntaskóla
án aðlögunar. Aldrei hlotið NPA-samning án aðstoðar. Aldrei byrjað í CrossFit.
Aldrei fengið rétta greiningu á eigin sjúkdómi...
Ég gerði þetta ekki ein, ég fékk hjálp.
Samt á ég stundum erfitt með að biðja um hjálp, þótt
ótrúlega megi virðast. Gott dæmi er þegar ég byrjaði í háskólanum. Fyrsta árið þrjóskaðist
ég áfram, ég bað um táknmálstúlkun en taldi það vera nóg. Þegar vorönnin hófst
bað starfsmaður skólans mig í guðana bænum að biðja sig um hjálp ef ég þyrfti.
Þá átti ég í basli með sjónræna áfanga á borð við tölfræði, stærðfræði og
bókhald. Ekki það að mér fyndist þessar greinar erfiðar eða leiðinlegar, enda
er ég í viðskiptafræði, heldur hitt að námsefnið og kennslan hentaði mér ekki
sökum sjónskerðingar minnar. Þegar ég svo féll í einum slíkum áfanga
skakklappaðist ég loks upp á skrifstofu og viðurkenndi að ég þyrfti aðstoð við
að læra. Ég bjóst ekki við miklu, enda er mín reynsla af íslenska kerfinu þannig.
En áður en ég vissi af var ég komin með viðeigandi stuðning í þessum greinum, sem
sat með mér klukkustundum saman, útskýrði dæmin og setti þau upp í tölvu. Einkunnirnar
hækkuðu og mér fannst ég skilja efnið betur. Námsráðgjöfin í háskólanum mínum á
lof skilið fyrir að bregðast fljótt og vel við sérstöðu minni.
Þetta atvik minnti mig á það að við erum allskonar, við getum
ekki öll farið nákvæmlega sömu leið. Ég er kannski daufblind, en ég trúi því að
ég geti gert sömu hluti og aðrir, bara á ólíkan hátt. Þess vegna er svo mikilvægt að viðurkenna
sjálfan sig, finna eigin mörk og vera óhræddur við að biðja um aðstoð. Og það
má ekki gleymi mikilvægi þess að þekkja eigin rétt, því kerfið er ekki endilega
að fara að passa upp á réttinn þinn fyrir þig. Því miður.
Góður pistill og lýsir þér vel, þú ert nagli
SvaraEyðaFínn pistill, þú tekur einmeitt á kjarna málsins, það þurfa allir að þekkja sín mörk og það þurfa allir að biðja um hjálp því við erum "allskonar" eins og þú segir. Ósköp hefði hann Jón, afi þinn, komist stutt á lífsleiðinni hefði hann ekki áttað sig á því að hann gat ekki gert alla hluti einn. Þú ert mikil fyrirmynd Áslaug mín, ég dáist að þér.
SvaraEyða