Færslur

Sýnir færslur frá júní, 2021

Sólskinsskyrterta Slaugu

Mynd
Karamelluskyrterta. Mynd úr einkasafni.   Mér hefur alltaf þótt gaman að baka og prófa mig áfram með allskonar hráefni. Um daginn smakkaði ég nýja saltkaramelluskyrið og datt strax í hug að setja það í köku. Skyrið er sætt og gott og mér fannst það þess vegna fullkomið í dessert. Eftir miklar vangaveltur, smá rannsóknarvinnu og tilraunir í litla stúdentaeldhúsinu varð til ljómandi góð og vel heppnuð skyrterta. Hún er svo góð að ég ákvað að deila uppskriftinni svo fleiri geti notið sælunnar. Það var erfiðast að ákveða hvað setja ætti í botninn, þar sem hægt er að nota allskonar kex. Ég endaði þó á að nota LU kex að ráði móður minnar. Einnig sá ég að fólk notar mismikið af smjöri á móti kexi, allt frá 50g upp í 200g, en á endanum fann ég út að 50g dugar. Í fyllinguna setti ég einungis þeyttan rjóma og saltkaramelluskyr, og ofan á notaði ég gamla fjölskylduuppskrift að karamellukremi og krispí súkkulaðikurl. Kakan heppnaðist ótrúlega vel og ég mæli klárlega með henni fyrir sælkera.