Sólskinsskyrterta Slaugu

Karamelluskyrterta. Mynd úr einkasafni.

 

Mér hefur alltaf þótt gaman að baka og prófa mig áfram með allskonar hráefni. Um daginn smakkaði ég nýja saltkaramelluskyrið og datt strax í hug að setja það í köku. Skyrið er sætt og gott og mér fannst það þess vegna fullkomið í dessert. Eftir miklar vangaveltur, smá rannsóknarvinnu og tilraunir í litla stúdentaeldhúsinu varð til ljómandi góð og vel heppnuð skyrterta. Hún er svo góð að ég ákvað að deila uppskriftinni svo fleiri geti notið sælunnar.

Það var erfiðast að ákveða hvað setja ætti í botninn, þar sem hægt er að nota allskonar kex. Ég endaði þó á að nota LU kex að ráði móður minnar. Einnig sá ég að fólk notar mismikið af smjöri á móti kexi, allt frá 50g upp í 200g, en á endanum fann ég út að 50g dugar. Í fyllinguna setti ég einungis þeyttan rjóma og saltkaramelluskyr, og ofan á notaði ég gamla fjölskylduuppskrift að karamellukremi og krispí súkkulaðikurl. Kakan heppnaðist ótrúlega vel og ég mæli klárlega með henni fyrir sælkera.

 
Karamelluskyrterta

Botn

  • 1 pk LU kex, ég notaði karamellu og möndlu en Bistonge myndi líka passa
  • 50 g smjör


Myljið kexið í matvinnsluvél eða í poka með kökukefli. Ég á reyndar ekki góða matvinnsluvél svo ég muldi í morteli og setti svo í blandara. Bræðið smjör og blandið saman við kexið. Setjið kexblönduna í form og þjappið aðeins niður. Ýtið upp á kantana og leyfið að kólna alveg.

 

Fylling:

  • 500g saltkaramellu skyr
  • 500g rjómi


Þeytið rjómann og bætið skyrinu svo varlega útí með sleif þar til vel blandað. Setjið skyr- og rjómablönduna ofan á kexið. Kælið áður en kremið er sett ofan á.

 

Sólskinskaramellukrem ömmu:

  • 2 dl rjómi
  • 2 msk síróp
  • 120 gr sykur
  • 30 gr smjör
  • 1 tsk vanilludropar

 

Þetta er mögulega erfiðasti parturinn, enda mikil þolinmæðisvinna að gera þessa gómsætu karamellu.  Rjómi, síróp og sykur soðið saman þar til mátulega þykkt (kannski svona 10-15 mínútur, jafnvel 20). Því næst er blandan tekin af hitanum og smjöri og vanillu hrært útí. Leyfið að kólna aðeins áður en sett á kökuna, karamellan þarf að hafa þykknað en má ekki vera orðin of köld og stíf þegar henni er hellt yfir kökuna.

 

Setjið kremið að lokum ofan á kökuna og stráið kurli yfir. Best er að leyfa henni að kólna yfir nótt, eða a.m.k. í klukkutíma.

Njótið!

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Grunnskólaárin sem í móðu #GameOver

Umræðan um starfsgetumat: Ef þú getur gert 9 armbeygjur áttu að vinna 90% starf

Crossfit-æfingar fyrir sitjandi fólk