15 Einföld Sparnaðarráð

Bíllinn hennar Slaugu.
,,Ég skil ekki hvernig allir þessir námsmenn eiga efni á bíl.“

 
Þetta sagði eldri maður við mig um daginn þegar hann sá alla bílana í Stúdentagörðum. Ég gat ekki annað en samsinnt honum, en benti þó á að ég á sjálf bíl. Það tók mig samt nokkur ár að  safna fyrir honum, og það getur verið fokdýrt að reka hann. En vegna fötlunar minnar hafði ég þó lítið val, ólíkt sumu fólki.

Þessir námsmenn hafa líklega safnað fyrir sínum bíl, eða tekið smálán. Smálán eru samt ALLS ekki sniðug, þar sem þau margfaldast oft með tímanum út af því að háir vextir eru lagðir á lága upphæð. Eða kannski eiga þessir stúdentar ríkan pabba, hver veit? En það eru oft kostir og ókostir við ýmsa hluti, eins og til dæmis bílakaup, og við þurfum þá að velja og hafna.

Við þurfum oft að velja og hafna þegar kemur að ráðstöfun fjármuna. Sumir fá himinháar tekjur á meðan aðrir rétt ná að klóra sig í gegnum daginn með nokkrar krónur. Sömuleiðis er fólk með mismunandi markmið, t.d. vilja sumir kaupa sér hús en aðrir leigja, sumir vilja ferðast um heiminn en aðrir vilja vera heima og hugsa um garðinn sinn. Hvað sem því líður þá eru  til nokkrar góðar leiðir til að spara pening, og þó ég sé ekki sú manneskja sem hugsar mikið um sparnað þá kann ég þó mörg góð trix sem ég vil endilega deila hér. Þessi trix hef ég lært í gegnum tíðina, bæði í námi mínu og daglegu lífi, og sum þeirra hafa óneitanlega komið mér að miklu gagni síðan ég flutti að heiman.


1. Settu þér markmið

Hvað er ég að skrifa heila grein um allskonar leiðir til að  spara, þegar lykillinn felst í raun í því að setja sér markmið? Það þýðir nú varla að vera að spara peninga þegar þú hefur ekkert markmið, þá ertu kannski ekkert annað en nísk/ur. Svo númer eitt, tvö og þrjú er að setjast niður og spyrja sjálfan sig: Hvað vil ég? Hvert stefni ég?  Þegar þú veist hvað þú vilt, þá getur þú farið að skipuleggja hvernig þú ætlar þér að ná markmiðinu. Markmiðið gæti verið eins einfalt og til dæmis að eiga fyrir mat og húsaleigu út mánuðinn, eða eitthvað háleitt eins og að fara í heimsreisu. Ef þú hefur séð Lísu í Undralandi, þá manstu kannski eftir atriði þar sem Lísa spyr köttinn til vegar. Kötturinn spyr hvert Lísa ætlar, en þegar Lísa segist ekki vita það þá segir kisi: Ef þú veist ekki hvert þú ætlar, þá skiptir engu máli hvaða leið þú ferð. Hér hafði kisi lög að mæla, því það að fara bara eitthvað skilar engu, nema þú sért lukkunnar pamfíll. Going anywhere is going nowhere.

2. Ekki kaupa bíl

Þetta sparnaðarráð hef ég oft heyrt, enda gamalt og gott ráð fyrir fólk sem býr í þéttbýli. Fyrir utan það að bílar menga, þá er kostnaðarsamt að eiga bíl. Þú þarft ekki aðeins að borga fyrir bílinn sjálfan, heldur einnig fyrir tryggingar, tékk, dekkjaskipti, eldsneyti og fleira.Í staðinn fyrir bíl getur þú fengið þér hjól eða strætókort. Hjól eru ódýrari en bílar og lítið mál að læra að gera alveg sjálfur við þau. Svo er bara að venja sig á að labba/hjóla í vinnuna eða skólann. Fórnarkostnaðurinn er mögulega tíminn, en ef svo er þá þarftu bara að skipuleggja þig vel. Þetta snýst jú allt um að velja og hafna.

3. Lestu verðmiðana

Allt í búðinni kostar eitthvað og þú átt að geta séð verðið. Reyndu að velja ódýrasta kostinn, og slepptu því að kaupa dýran óþarfa. Farðu frekar í Bónus en Hagkaup, eða jafnvel í Costco ef þú þarft að kaupa mikið magn af vörunni.

4. Borðaðu heima

Skyndibiti, kaffihús og veitingastaðir kosta sitt og oft er mun ódýrara að elda sjálfur. Það tekur auðvitað tíma að elda, en á móti kemur að þú sparar bæði matarkostnað og kostnað við að sækja matinn eða láta senda hann til þín.

5. Gerðu vikumatseðil

Þetta ráð hefur án efa bjargað mér síðan ég flutti að heiman. Ég hef gert vikumatseðla reglulega og næ þannig að fullnýta þau hráefni sem ég kaupi. Í stað þess að vera alltaf að hlaupa út í búð að kaupa eitthvað sem þú munt svo bara nota einu sinni, getur þú keypt allt í einu og haft matseðilinn þannig að þú nýtir hráefnin betur.

6. Ekki henda afgöngum

Ef þú átt afganga inni í ísskáp sem eru enn ætir, þá er sniðugt að nýta þá aftur, t.d. fyrir hádegismat eða nasl. Þú gætir jafnvel leikið þér með afgangana og búið til eitthvað gott úr þeim, t.d. ef þú átt afgang af kjúklingi þá gætir þú búið til samloku eða vefju. Enn og aftur nýtir þú betur hráefnin sem þú keyptir fyrir vikumatseðilinn, og þú þarft ekki að hlaupa í næstu búð næst þegar þú verður svöng/svangur.

7. Dýrar og fáar vörur vs. ódýrar og margar vörur

Sumir halda að það sé betra að kaupa dýrari vörur út af gæðunum á meðan aðrir kaupa hræódýrar vörur. Ekki allar dýrar vörur eru þó góðar, en ef þú finnur þannig vörur þá er sniðugt að kaupa þær. Ef þú hins vegar kaupir hræódýrar þá er líftími þeirra líklega styttri og þú þarft að endurnýja kaupin aftur og aftur, þangað til samanlagður kostnaður er meiri heldur en ef þú kaupir bara eina vöru á hærra verði.  Hér skiptir þó líka máli að þekkja vörumerkin, stundum eru þetta rándýr vörumerki en léleg gæði á meðan önnur dýr vörumerki hafa getið sér gott orð fyrir góð gæði.

8. Ekki kaupa alltaf nýjustu týpuna af iPhone

Sumir þurfa alltaf að eiga nýjustu tæknina og endurnýja t.d. símann sinn reglulega. En gamli síminn virkar kannski enn vel, svo til hvers að vera að kaupa nýjan þegar þú getur enn notað þann gamla? Þú vilt kannski bara vera eins og hinir, vera kúl og fylgja tískunni, en ekki gleyma að þannig hugarfar getur reynst þér dýrkeypt.

9. Þegar þú flytur út – ekki kaupa allt nýtt

Enn og aftur bjargaði þetta mer þegar ég flutti að heiman. Ég byrjaði á því að fá gefins gömul húsgögn eða keypti þau ódýrt. En smám saman hafa þau vikið fyrir nýjum húsgögnum, sem ég hef gefið mér tíma til að velja vandlega og safna fyrir. Það er sniðugt að nýta útsölur til að kaupa í búið eða gera sér markmið hvaða húsgögn þú ætlar að kaupa og safna fyrir þeim.

10. Slepptu því að fara til útlanda oft á ári

Utanlandsferðir geta verið kostnaðarsamar. Þú þarft að greiða fyrir ferð til og frá flugvelli nema þú reddir þér ókeypis fari, borga flug og gistingu og svo mat og annað álíka. Og kannski ertu bara að fara í verslunarferð að spreða, hversu hagkvæmt hljómar það?

11. Stofnaðu sparireikning

Hér kemur besta sparnaðarráðið – farðu í bankann og láttu stofna sparireikning fyrir þig. Svo getur þú lagt ákveðið hlutfall af mánaðarlegum tekjum þínum inn á reikninginn. Gott er að gera sér markmið, t.d. hvað þú ætlar að safna miklu á einu ári og í hvað peningarnir eiga að fara. Það eru til mismunandi gerðir af sparireikningum, best er að fara í bankann og fá ráðgjöf varðandi hvaða reikningur hentar þér best.

12. Gleymdu öllu um spa og þess háttar lúxuslíf

Hárgreiðslu- og snyrtistofur rukka að sjálfsögðu fyrir þjónustu sina. Þú ert kannski ein af þeim sem vill hafa fallegar augabrúnir, fara í brasiliiskt eða þarft sífellt að vera að laga hárið. Þú getur keypt þér plokkara og augnbrúnalit á mun hagstæðara verði en ef þú færir á stofu, og rakvél í staðinn fyrir brasilískt. Ef þú þekkir einhvern sem er góður í að klippa hár þá má jafnvel slá á þráðinn til viðkomandi. Og mín reynsla er sú að velja ekki hárgreiðslu sem þarfnast mikillar umhirðu, t.d. að lita hárið í allt öðrum lit.

13. Skipulegðu fyrirfram hvernig þú notar peninginn

Það getur verið sniðugt að skipta tekjunum niður, t.d. ákveðinn hluti fer í matarinnkaup, annar í nauðsynjar fyrir heimilið, þriðji föt og snyrtidót, fjórði í sparnað og fimmti í annað.Þá er best að setjast niður og spyrja sig að því í hvað þú eyðir peningnum mest, og  áætla síðan hvað þú myndir eyða miklu í viðkomandi.

14. Heimilisbókhald

Þú getur haldið utan um öll gjöld og tekjur t.d. með því að nota Meniga eða einfaldlega búið til Excel-skjal og skráð allt niður reglulega, Þannig getur þú fylgst vel með eigin eyðslu og tekið betri ákvarðanir varðandi kaupin.

15. Nýttu þér afslætti

Mörg nemendafélög og jafnvel vinnustaðir bjóða upp á ýmsa afslætti. Sjálf hef ég verið í nemendafélagi viðskiptafræðinema í HÍ undanfarin ár og einnig með Stúdentakort, og þannig fengið afslætti út um allan bæ. Stúdentakort geta jafnvel virkað erlendis, t.d. fékk ég afslátt í vatnsstrætó í París fyrir nokkrum árum af því ég var námsmaður með viðeigandi skilríki. Og það er ekki heldur  vitlaust að nýta tengslanetið til að fá smá afslátt, ég fékk t.d. afslátt þegar ég keypti Polar úrið mitt fyrir ræktina af því ég þekkti rétta fólkið. Þetta hljómar kannski eins og dirty business, en þetta  virkar samt.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Grunnskólaárin sem í móðu #GameOver

Umræðan um starfsgetumat: Ef þú getur gert 9 armbeygjur áttu að vinna 90% starf

Crossfit-æfingar fyrir sitjandi fólk