Besta áramótatiramisu-ið
Tiramisu. Mynd af https://www.askchefdennis.com/the-best-tiramisu-you-will-ever-make/ |
Jól og áramót eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Það sem gerir þau svo aðlaðandi í mínum huga eru allar skreytingarnar, stemmningin, samveran og maturinn að ógleymdum kærleikanum.
Ég legg
mikið upp úr jóla- og áramótamatnum enda er markmiðið alltaf að borða á sig
gat. Ég elda reyndar ekki matinn sjálf en hins vegar er ég farin að dunda mér
við að gera eftirréttina. Á mínu heimili skiptum við með okkur verkum og nú
seinast sáum við pabbi um eftirréttina. Hann gerði ris a la mande með karamellurjóma fyrir aðfangadagskvöld og
cherry fromage á jóladag á meðan ég
gerði Toblerone súkkulaðimús á öðrum í jólum og tiramisu á gamlárskvöld.
Ég er vön að
gera súkkulaðimús svo þetta var ekkert mál, en tiramisu var mun meiri áskorun.
Eftir að hafa lagst í mikla rannsóknarvinnu um hið klassíska ítalska tiramisu ákvað ég að fylgja uppskrift eftir kokkinn Dennis Littley. Sá stagaðist mikið á smáatriðum í sinni uppskrift, útskýrði
allt frá A – Ö og notaði myndir óspart
til að sýna hvernig á að gera þetta
rétt. Tiramisu-ið er reyndar ekki alveg eins og upprunalega útgáfan en engu að
síður heppnaðist það mjög vel hjá mér og var alveg ótrúlega gott. Eftirrétturinn leit ljómandi vel út en ég náði því miður ekki mynd áður en hann hvarf ofan í gestina. Hér á eftir
er uppskrift að því í lauslegri þýðingu, en ég mæli klárlega með þessari
uppskrift.
Hráefni
- 1 bolli sykur
- 6 eggjarauður
- 1 ¼ bolli mascarpone
- 1 ¾ bolli rjómi
- Ladyfingers (ég notaði 2 pakka, Dennis Littley taldi 30 kökur)
- 1 bolli espresso eða sterkt kaffi
- ½ bolli Amaretto eða annar kaffilíkjör að eigin vali.
- Smá kakó
Aðferð
- Fyrst þarf að byrja á að búa til svokallað Sabayon. Hitið smá vatn í potti og setjið skál yfir, passið að skálin sé fyrir ofan vatnið en ekki á kafi því sabayon á að þeyta yfir vatnsbeði!
- Þeytið saman eggjarauður og sykur yfir vatnsbeðinu þar til blandan er farin að þykkna og orðin sítrónugul. Það má taka skálina úr pottinum ef hún verður heit.
- Blandið mascarpone saman við eggjablönduna.
- Þeytið rjóma í annarri skál. Dennis kokkur segir byrja hægt og auka svo smám saman hraðann á u.þ.b. 10 mínútna tímabili þar til þeytarinn er kominn á fulla ferð og rjóminn fullkomlega þeyttur.
- Bætið rjómanum út í hina skálina og blandið varlega saman með sleikju.
- Setjið kalt kaffi og Amaretto í aðra skál og hrærið saman.
- Dýfið ladyfingers í kaffiblönduna og raðið í botninn á kassalaga móti.
- Hellið svo helmingnum af sabayon yfir kexið.
- Raðið öðru lagi af ladyfingers ofan á og hellið svo restinni af sabayon yfir.
- Sléttið með sleikju og stráið loks kakói yfir í lokin. Ég sigtaði það yfir mótið til að koma í veg fyrir að það mynduðust klumpar og hreinsaði svo útataðar brúnirnar með tissjúi svo formið lúkki betur.
- Plastið yfir og skellið í kæli yfir nótt eða í a.m.k 6 klst.
Góð ráð
Dennis kokkur kom með allskonar ráð sem gott er að hafa í huga. Hér á eftir eru nokkur slík:
- Það er mælt með því að eggin og mascarpone séu við stofuhita svo auðveldara sé að vinna með þau, en það er alls ekki nauðsynlegt.
- Ekki drekkja ladyfingers í kaffiblöndunni, heldur á einungis að bleyta kexið í nokkrar sekúndur.
- Endilega geymið tiramisu í kæli í 1 - 2 daga áður en það er borið fram. Þessi tiramisu ætti að endast í kæli í allt að viku.
- Það þarf ekkert að vera áfengi í þessu, það má sleppa líkjörnum og nota bara meira kaffi í staðinn.
- Það má nota annan kaffilíkjör en Amaretto ef ætlunin er að halda sig við áfengið, t.d. Amarola eða Kahlúa. Ég sá meira að segja eina uppskrift með Cointreau þó mér persónulega leist ekkert á það combo.
Ummæli
Skrifa ummæli