Draumurinn um háskólagráðu
Slauga viðskiptafræðingur. |
,,Fyrst
klárar þú grunnskóla, svo getur þú farið í menntaskóla og svo alla leið í
háskóla.“
Þetta sagði
kennarinn minn við mig einn daginn í 5. bekk þegar ég hafði leyst enn eitt
verkefnið og var að sýna henni afraksturinn. Hún hafði greinilega fulla trú á
mér en ég horfði bara á hana og sagði hneyskluð: ,,En það er svo langt þangað
til!“
Núna, rúmum þrettán árum síðar hef ég lokið öllum þessum
skólastigum. Tíminn leið hraðar en ég bjóst við <en draumurinn um að fara í háskóla var alltaf til staðar.
Einhverjir myndu segja að menntun sé ofmetin, en mér var kennt að meta menntun
og að hún væri lykillinn að velferð. Ef ég var
við það að gefast upp á náminu, sem gerðist af og til, hugsaði ég til langafa
míns, fátæka bóndans á Ströndum, sem stritaði allt sitt líf til þess að afi
minn og bræður hans gætu gengið menntaveginn. Á þeim tíma var ekki sjálfgefið
að menntast á Íslandi, hvað þá fyrir fátækan bóndason eins og afa. En allt
stritið borgaði sig hjá kotbóndanum langaafa mínum og ég ætlaði að halda áfram
að strita eins og hann og afi, þar til ég næði markmiði mínu. Ég gat þetta!
Ég flaug í
gegnum menntaskólann á þremur og hálfu ári.
Ég valdi skóla þar sem ég gat verið viss um að fá þá aðstoð sem ég
þurfti og þar sem var námsleið sem ég
brann fyrir. Ég vildi sem sagt ekki einblína á tungumál eða náttúruvísindi, ég
vildi læra allt, og í menntaskólanum sem ég fór í var Opin braut þar sem ég gat
blandað saman tungumálum, hagfræði og leiklist. Ef þú ert að velta fyrir þér
hvaða draumaskóli þetta hafi eiginlega verið sem ég fann, þá var þetta bara
menntaskólinn við hliðina á gamla grunnskólanum mínum, Menntaskólinn við
Hamrahlíð.
Þegar ég
útskrifaðist úr menntaskóla vissi ég ekki alveg hvað ég vildi. Ég var frekar
vel undirbúin fyrir margs konar nám og langaði mest í viðskiptafræði eða
bókmenntafræði. Á þeim tíma langaði mig svolítið að feta í fótspor flestra úr
ætt mömmu og starfa innan ferðaþjónustunnar. En einnig langaði mig að verða
bókaútgefandi eða skáld. Eftir miklar vangaveltur og ráðfæringar við mína
nánustu ákvað ég að fara í viðskiptafræði og svo bókmenntafræði og ákveða svo
hvað ég ætlaði að gera í lífinu. Einhversstaðar varð ég að byrja. Ég trúði því
að því meiri menntun sem ég öðlaðist því
fleiri dyr myndu opnast fyrir mér, og ég
trúi því enn statt og stöðugt.
Ég vissi að
Háskóli Íslands bauð upp á þá aðstoð sem ég þyrfti. Mig langaði reyndar líka í
HR, en eftir að hafa heyrt að sá skóli greiði ekki fyrir nauðsynlega
táknmálstúlkaþjónustu sem ég þyrfti missti ég allan áhugann á að fara þangað.
Ég sótti því um nám í HÍ og fékk inngöngu. Í kjölfarið hafði ég samband við
skólann og óskaði eftir að fá aðstoð og aðlögun í námi. Systir mín var þegar
við nám í stjórnmálafræði þar og fékk fanta góða þjónustu. Áður en ég vissi af
var ég komin í samband við NSHÍ og var kölluð á fund hjá þeim áður en önnin var
hafin. Þar vildu þau allt fyrir mig gera og við gerðum samning um hvernig aðstoð ég skyldi fá. Ég skyldi fá
táknmálstúlka í tímum, lengri prófatíma og sveigjanlegri skilafrest á
verkefnum. Þá fékk ég einnig svokallaða glósuvini, þ.e. samnemendur sem glósuðu
í tímum og sendu glósurnar á mig, en ég sjálf get ekki glósað. Einnig ætlaði
NSHÍ að senda bréf á alla mína kennara og upplýsa um stöðu mína, svo ég þyrfti
ekki að endurtaka í sífellu hver ég væri og hvað ég þyrfti.
Síðan hófst námið af fullum krafti. Ég tók þó
fljótt eftir hve erfitt ég átti með
tölfræði aðrar stærðfræðigreinar vegna sjónræna hlutans, og brátt var ég einnig
komin með dæmakennara sem settist niður með mér yfir dæmunum og útskýrði allt. Einnig
fékk ég aðstoð í prófum þar sem gögn voru leyfileg, enda mjög erfitt fyrir
blinda manneskju eins og mig að leita í gögnum. Uppi í HÍ er stofa sem heitir
Aðgengissetrið. Þar er lestæki fyrir sjónskerta og tölvur með stækkunarbúnaði
sem standa á upphækkanlegum borðum. Þarna gat ég lært ásamt túlki og
dæmakennara þegar þess þurfti og einnig tekið prófin mín. Síðasta árið í
viðskiptafræðinni var þó frekar erfitt að fá Aðgengissetrið, þar sem fleiri
voru komnir með samning eins og ég og því meiri samkeppni um að fá að nota
aðstöðuna. Satt að segja held ég að HÍ sé
við það að springa vegna fjölda nemenda með sérsamning, í raun þyrfti
nýja og stærri aðstöðu fyrir okkur öll. En það var í lagi mín vegna að komast
stundum ekki í Aðgengissetrið, ég lærði þá bara heima eða mætti upp í skóla á
kvöldin þegar stofan losnaði. Stundum var ég svo langt fram eftir að ég fór
beint eftir dæmatíma í Stúdentakjallarann og fékk mér bjór.
Kennararnir
tóku misvel á móti mér. Sumir stóðu sig frábærlega en aðrir voru ekki eins
tilbúnir að taka við mér. Ég fékk minn skerf af mótlæti, en ég var svo heppin
að eiga góða að sem gátu stutt mig og hjálpað mér að leysa vandamál sem upp
komu. Einu sinni þurfti ég þó að leita til hagsmunafulltrúa Stúdentaráðs vegna
framgöngu eins kennarans. Hagsmunafulltrúinn kom málinu áfram til réttra aila
og það mál var leyst með þeirra hjálp. Ég mæli eindregið með að stúdentar nýti
sér þjónustu hagsmunafulltrúa Stúdentaráðs ef þeim þykir brotið á sér eða
þekkja ekki eigin rétt innan skólans.
Fljótlega
eftir að ég byrjaði í HÍ fann ég að ég vildi leggja mitt af mörkum og bæta
stöðu fatlaðra stúdenta. Margt mátti bæta, þjónustan var kannski óaðfinnanleg
en ekki aðgengið. HÍ er frekar gamall skóli og margar byggingar henta ekki vel
fyrir fólk í hjólastól eða blinda og sjónskerta. Eins voru ekki allir
fyrirlestrar teknir upp eða glærur settar á netið, eins og ætti að vera. Þess
vegna ákvað ég að blanda mér inn í stúdentapólitíkina. Það var mjög skemmtilegt
og gefandi, en helsta hindrunin var að skólinn veitir ekki aðstoð í
félagslífinu heldur aðeins í tengslum við námið. Ég varð því sjálf að redda
táknmálstúlkum og gat ekki lofað fullri þátttöku í félagslífinu. En ég gat þó
gert eitthvað og gekk stolt frá borði eftir tæpt ár sem varamaður í
Stúdentaráði. ritstýra Röskvu og svo má ekki gleyma árinu sem ég eyddi í
Jafnréttisnefnd Stúdentaráðsog ritnefnd Mágúsartíðinda, tímariti
viðskiptafræðinema við HÍ. Hver veit, kannski sný ég aftur í stúdentapólitíkina
þegar ég hef tíma og þrek í það. Ég er allavega aðeins byrjuð að skoða mig um í
nemendafélagi bókmenntafræðinema, Torfhildi, og mér líst bara mjög vel á það
sem þau eru að gera þar.
Nú er ég
byrjuð í bókmenntafræði og finnst námið bara mjög skemmtilegt og áhugavert.
Fékk reyndar vægt sjokk þegar ég átti að gera heimapróf þar sem ég átti að
skrifa 3000 – 4000 orð og nota rökfræði. Slíkt átti ég ekki að venjast úr
viðskiptafræðinni, svo ég tali nú ekki um að
í bókmenntafræðinni er engin tölfræði. En ég er samt enn að nota Excel
við heimalærdóm, held samt ég skrifi
heilu rökfærslurnar annars staðar J
Að lokum vil
ég þakka öllum sem hafa stutt mig í gegnum námið. Allir frábæru kennararnir sem
höfðu ttú á mér, æðislega starfsfólk NSHÍ sem vilja allt fyrir mig gera,
túlkarnir sem gáfu ekkert eftir í að túlka námsefnið og vinna með mér,
skemmtilegu samnemendurnir, traustu vinirnir og síðast en ekki síst fjölskylda
mín sem hefur staðið þétt við bakið á mér. Það er ómetanlegt að fá þann
stuðning sem ég þarf og finna að fólk hefur trú á mér. Ég hef lært að það er í
lagi að setja sér háleit markmið og að með því að vinna jafnt og þétt og trúa á
sjálfa mig geta draumarnir orðið að veruleika. Ef þú, lesandi góður, ert að
hugsa um að ganga menntaveginn eða ert með aðra drauma, þá ekki hika! Eins og
enska máltækið segir: Where there is a will, there is a way.
Ummæli
Skrifa ummæli