Gamlárspístill: Klikkaða árið 2019
Slauga á Akureyri jólin 2019. |
Áramót, enn og aftur...
2019 er senn á enda og stutt í að næsti áratugur taki
við. Þetta ár hefur verið heldur viðburðarríkt hjá mér, og sömuleiðis
áratugurinn. Á þessum áratug lauk ég tveimur skólastigum og hóf það þriðja,
uppgötvaði Crossfit og gaf út bók. Þá fékk ég einnig NPA, keypti mína fyrstu
bífreið og flutti að heiman. Svo ég tali nú ekki um að hafa fengið rétta
sjúkdómsgreiningu og farið að taka slatta af B2-vítamíni á hverjum degi. Þetta
hefur svo sannarlega verið viðburðarríkur áratugur hjá mér, en nú langar mig aðeins að staldra við og líta yfir
árið sem er að líða, sem sagt 2019.
2019 hófst með látum í stofunni heima hjá foreldrum
mínum. Venjan á heimilinu er að skála í freyðivíni á miðnætti, og í þetta
skipti var vínflastan sett í hendurnar á mér og allir biðu eftirvæntingarfullir
eftir að ég opnaði hana. Það tókst þó ekki betur til en svo að vínið gusaðist
yfir mig þegar ég loks náði tappanum af, enda hafði ég ekki gætt að mér og
óvart sett hendina yfir stútinn í leiðinni. En jæja, bara mjög týpískt ég, og
þetta voru hvort sem er bara fáeinir dropar.
Svo fékk ég mér sæti inni í stofu og gæddi mér á
rauðvíni og ostum. Ég gat ekki annað en hugsað með mér #feelinggrownup, enda
ekki langt síðan ég lærði að meta þetta kombó.
Ég var svo sannarlega fullorðin að því leyti að innan
fárra vikna var ég flutt að heiman. Mér hafði nefnilega tekist að afreka það í
árslok 2018 að fá stúdentaíbúð og sólarhringsaðstoð. Þetta var kannski bara
stúdentaíbúð, ekki einu sinni íbúðarkaup, en ég var samt mjög ánægð að hafa
yfirhöfuð tekist að afreka þetta. Það voru jú bara sex ár síðan ég fékk NPA, og
ég veit eiginlega ekki hvar ég væri í dag ef það hefði aldrei gerst.
Slauga í nýju íbúðinni sinni í ársbyrjun 2019. |
Fyrstu mánuði ársins lærði ég fullt um lífið og
tilveruna. Ég þurfti að sjá um eigið
heimili, sem var svo sem lítið mál enda hafði ég verið frekar sjálfbjarga með
mat og þvott heima hjá foreldrum mínum. Það var þó flóknara ef eitthvað bilaði,
eða ég þurfti að spá í smáatriðum eins og hvernig ég ætti að bjarga mér í
eldhúsinu án þess að eiga til dýrar og fínar græjur. Sem sagt læra að hella upp
á kaffi í könnu og baka köku með sleikju, opna dósir með hníf og svo tókst mér
að opna bjórflöskur með gaffli, Fékk mér samt á endanum dósaopnara og
upptakara, og svo fóru hlutirnir smám saman að detta inn í skápana hjá mér. Enn
engin uppþvottavél, en ég er eiginlega búin að gleyma því hvernig er að eiga
slíkt tæki. Ég kann bara vel við mig í
þessari hugguleguog kannski smá gamaldags íbúð. Verst var þó þegar klósettið
stíflaðist og ég vissi hreinlega ekkert hvernig ég ætti að laga það. Ég þurfti
að hringja í hann pabba minn og biðja hann að koma og kíkja á klósettið, og
fékk í leiðinni tilsögn frá honum hvernig ætti að losa um stíflur.
Samtímis því að
vera flutt að heiman stefndi ég á að klára viðskiptafræðina um jólin.
Áramótaheitið mitt þetta árið var jú að
klára BS-ritgerðina í viðskiptafræði og mér virðist hafa tekist það. Ég er
allavega á lokametrunum, á bara eftir að fara yfir með leiðbeinandanum og senda
svo í prentun. Planið var líka að sækja um nám í bókmenntafræði og byrja strax
á nýju ári. Þannig að ég sótti um, fékk inngöngu og mun hefja BA nám í
bókmenntafræði eftir tvær vikur.
Svo má ekki gleyma blessuðu sumrinu. Sumarið sem sólin
skein skært og það varð óvenju heitt í Reykjavík. Nema hvað ég hafði ákveðið að
fara í þessa blessuðu bakaðgerð og missti því af góða veðrinu. Ég var eiginlega
búin að gleyma að til væri sumar á Íslandi eftir rigningarsumarið 2018 og hafði
því talið best að fara bara í aðgerð á sumartímanum. Þetta var svo sem fín
tímasetning fyrir utan að missa af góða veðrinu, því þá missti ég allavega ekki
úr skólanum. Ég skil enn ekkert í sjálfri mér að hafa þraukað þessar vikur
eftir aðgerðinaþetta var svo sannarlega engin smávægileg aðgerð. Hryggurinn var
festur með um tuttugu skrúfum og yfir tíu tengingum, og aðgerðin tók tæpar sex
klukkustundir. Sársaukinn sem fylgdi var nánast óbærilegur og þreytan var
rosaleg, ég bara hreinlega gat ekki gert neitt fyrstu vikurnar nema liggja og bryðja verkjalyf. En
ég hafði sjálf ákveðið að fara í þessa aðgerð, enda sá ég fram á enn verri bak
og versnandi lífsgæði ef ekki yrði gripið inn í núna. Þannig að ég lét mig hafa
það og er nú orðin góð aftur og sátt með bakið.
Ég hefði þó mestar áhyggjur af því að mega ekki æfa
Crossfit eftir aðgerð og sú var raunin. Læknirinn sagði fyrst að ég mætti
hugsanlega fara að æfa eitthvað léttara þremur mánuðum eftir aðgerð, en ekki
Crossfit fyrr en að sex mánuðum liðnum. En eftir þrjá mánuði ráðlagði læknirinn
mér svo að hvíla í þrjá mánuði í viðbót og ég þorði ekki annað en að hlýða. Svo
rétt fyrir jól fékk ég að vita að nú
mætti ég byrja í sjúkraþjálfun. Læknirinn taldi Crossfit hins vegar enn vera of
mikið fyrir bakið og ráðlagði mér að bíða með það í þrjá mánuði í viðbót. Þannig að hér er ég, enn að bíða eftir því að mega stökkva af stað í
næsta WOD. Ég ætla svo sannarlega að bæta upp þessa níu mánuði án Crossfit strax
í mars 2020, ég er orðin mjög óþreyjufull. Svo var ég að fá ný úlnliðsbönd í
jólagjöf og því mjög spennt að fara að nota þau í Clean og Jerk!
En það var fleira sem gerðist árið 2019. Ég ákvað
loksins að taka mig til og reyna að komast inn í málefnahóp Öryrkjabandalags
Íslands um atvinnu og menntamál, eitthvað sem ég var búin að íhuga í þónokkurn
tíma. Ég hafði verið, og er enn, í Ungliðahreyfingu ÖBÍ, en mig langaði að
komast almennilega inn í starfið þar. Ég komst inn í hópinn sem fulltrúi míns
hagsmunafélags, Fjólu félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu þar
sem ég gegni stöðu gjaldkera, og áður en ég vissi af var ég kjörin varaformaður
málefnahópsins. En svo atvikaðist það þannig að mér bauðst allt í einu
formannsstaða í hópnum. Ég hafði nú svo sem ekki búist við þessu, ætlaði bara
að verða nefndarmeðlimur og koma mér aðeins inn í starfið innan bandalagsins.
En ég gat eiginlega ekki sagt nei þegar mér bauðst formannsstaðan, enda hafði
ég áhuga og taldi mig vel færa til að gegna henni. Þannig að á nýju ári mun ég
taka til starfa sem formaður málefnahóps um atvinnu og menntamál innan ÖBÍ, og
ég er frekar spennt fyrir því verkefni.
Þetta er það helsta sem gerðist á árinu sem er að líða
og þó er ótalmargt annað sem einnig skeði. En ég ætla ekkert að fara út í það
allt, þá yrði þetta blogg bara langt og leiðinlegt. Félagslíf, ferðalög og ýmis
verkefni komu til sögunnar og þegar ég lít til baka um farinn veg get ég ekki annað
en brosað með sjálfri mér. Þetta hefur svo sannarlega verið viðburðarríkt ár og
nóg að gera hér á blogginu sömuleiðis. Ég hlakka til að takast á við nýtt ár og
nýjan áratug og halda áfram að blogga.
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir árið sem er að líða.
Takk fyrir að gefa þér tíma til að lesa þetta blogg á árinu og ég vona svo
sannarlega að bloggfærslurnar verði fleiri og skemmtilegri þannig að þú nennir
að halda áfram að lesa það J
Ummæli
Skrifa ummæli