Bak-þankar
![]() |
Mynd tekin mánuði eftir aðgerð. |
P.S. Neðar í greininni er mynd af skurðinum, svo þú mátt búa þig undir smá óþægilega sjón.
Ástæðan
fyrir því að ég skrifa þetta er sú að ég vil veita öðru fólki innsýn í það
hvernig er að vera með sjaldgæfan taugahrörnunarsjúkdóm og gangast undir stóra
bakaðgerð. Við upplifum hlutina á mjög ólíkan hátt og sömuleiðis er mismunandi
hvernig þeir ganga hjá okkur, en samt má alltaf læra eitthvað af reynslu
annarra. Sjálf fannst mér ég mjög heppin að geta rætt við aðra sem höfðu lagst
undir hnífinn og látið laga á sér hrygginn. Það var líka áhugavert að bera
saman aðgerðirnar og sjá hvað sumt var líkt en annað ekki. Þess vegna ætla ég
að rifja upp þegar ég fór í þessa aðgerð, hvernig hún gekk fyrir sig og hvernig
mér leið.
Ég fór í
þessa bakaðgerð 5. júni sl. Laga þurfti skekkjur á svæði L4 og T4 á hryggnum á
mér, en skekkjan var komin vel yfir ásættanleg mörk. Strax löngu fyrir aðgerð
hóf ég undirbúning, m.a. fór ég að mæta oftar í sjúkraþjálfun, hætti tímabundið
að drekka áfengi og þurfti að hætta að taka fæðubótaefni viku fyrir aðgerð.
Bless, NOCCO og Tuborg, verst að þetta hafi verið í lok prófatíðar og allir að
djamma og drekka!
Stuttu fyrir
aðgerð þurfti ég að mæta upp á spítala að hitta alla læknana. Ég mætti með
mömmu í eftirdragi og byrjaði á því að fara í blóðprufu. Mamma vissi strax hvar
blóðrannsóknirnar væru á spítalanum og þegar ég spurði hvernig í ósköpunum hún rataði í
þessu völundarhúsi svaraði hún kankvís: „Kannski af því ég á tvær langveikar
dætur.“
Hjúkrunarfræðingurinn
sem tók blóðið talaði um áhuga sinn á táknmáli á meðan mamma var náföl í framan
en ég jánkaði bara og spurði hvernig blóðið væri á litinn. Dökkt, var svarið,
næstum svart. Jahá ég þarf kannski að drekka minna af svörtu gosi eða hvað?
Því næst
færði ég mig á einhvern gang og fékk blað með spurningalista í hendurnar. Á
þessu blaði var spurt út í heilsuna mína, t.d. ef ég væri með gigt,
vöðvasjúkdóm, hvort ég reykti og hvaða lyf ég tæki. Þegar einn læknirinn leit
svo yfir svörin sagði hann: „Gott, þú ert heilbrigð.“
Ég gat ekki
annað en glott og sagt við mömmu: „Segir svo að ég sé langveik!“
Ég hitti
svæfingarlækni, hjúkrunarfræðing, sjúkraþjálfara og deildarlækni. Þegar ég
spurði annan lækninn út í blóðprufuna sagði hann að allt hefði litið vel út. Hann var þó hissa á
því hvað ég væri með fín rauð blóðkorn, var ég ekki örugglega grænmetisæta?
„Jájá, bara
ekki vegan,“ svaraði ég og næstu vikurnar þurfti ég að svara svipuðum
spurningum frá hinu og þessu heilbrigðisstarfsfólki, sem var ekki alveg að
skilja muninn á vegan, vegetarian og
pescatarian. Seinna fattaði ég að það
hefði gleymst að skrá mig sem grænmetisætu þegar ég lá á legudeild, en ég hafði
þá svo litla matarlyst og mátti lengi ekki borða mettan mat, að ég tók ekki
eftir því. En þegar ég fór að taka eftir því hve oft ég fékk kjötrétti,
uppgötvaði ég mistökin. Ég vildi nú samt
fá kakósúpuna þarna með rjómanum, pottþétt ekki vegan.
Að lokum fór
ég í röntgen og þaðan beint á fund. Ég var mætt á fundinn sem var að hefjast
þegar spítalinn hringdi og bað mig að
koma aftur í röntgen, fyrri myndataka hafði víst mistekist. Ég var ekki alveg
að nenna þessu og tókst á endanum að fá annan tíma.
Eftir þessa
læknisheimsókn var ég send heim með leiðbeiningar hvernig ég ætti að búa mig
undir aðgerð. Sem sagt borða hollt og gott, fá blóðþurrðarsprautu, fara tvisvar í sótthreinsisturtu, taka af mér alla
eyrnarlokkana og ekki borða fæðubótarefni eða neyta vímuefna/áfengis. Allt gekk
vel fyrir utan það hve erfitt var að ná öllum fimm lokkunum, ég þurfti á
endanum að hringja í pabba og spyrja hvað í fjáranum ég þyrfti að gera til að
ná síðasta lokknum út. En það hafðist allt á endanum, og ég setti þá ofan í box
með mikilli eftirsjá.
Ég mætti
eldsnemma í innritun á spítalann þann 5. júni með rauða ferðatösku i
eftirdragi. Mér hafði verið sagt að ég þyrfti að liggja uppi á spítala í
einhverja daga, svo ég pakkaði niður dótinu mínu og dröslaðist með það, eins og
ég væri að fara til útlanda í frí. Kósýföt, tölva, heyrnartól... Ég hafði
mestar áhyggjur af því að drepast úr leiðindum, en það kom í ljós síðar að það voru
alveg óþarfa áhyggjur.
Ég var send
í enn eina sótthreinsisturtu, sem er sturta þar sem hár og líkami er þrifinn
með svampi og klóróformi, ekkert sjampó og engin sturtusápa. Áður en ég vissi
af var ég búin að fá kæruleysislyf, komin upp í rúm og því ekið af stað. Ég fann fyrir smá nostalgíu þar
sem ég lá í rúminu og horfði upp í loftið og ljósin sem komu hvert á fætur öðru. Þetta var
líklega sama loftið og ég hafði glápt á þegar ég var barn á leið í
vöðvasýnistöku, ég man enn hvað ég var hrædd við svæfinguna þá. En nú var
svæfingin ekkert vandamál, enda löngu hætt að nota gas við svæfingar. Þess í
stað var einhverjum nálum stungið í mig og ég látin fá súrefnisgrímu. Og á
meðan ég var að sofna spjallaði ég við aðra svæfingarhjúkkuna, sem reyndist
vera systir vinafólks foreldra minna. Litla Ísland - meira að segja á
skurðstofunni hittir maður kunningja!
Þegar ég
rankaði aftur við mér lá ég á vöknun. það fyrsta sem ég hugsaði var: ég er
svöng! Ég bað aðstoðarkonuna að fara og kaupa fyrir mig samloku og NOCCO og var
bara voða spennt að fá að borða eftir sex klukkustunda aðgerð. En nei, segir þá
einhver hjúkrunarfræðingur að ég megi hvorki borða né taka inn fæðubótaefni!
Meltingin þyrfti nefnilega að vera komin í gang áður en ég mætti éta mat, svo
ég varð að sætta mig við næringu í æð og fljótandi fæði. Og alls ekkert
fæðubótaefni eða áfengi, því ég var á læknadópi. Þið vissuð það kannski ekki,
en Oxycontine veldur hægðatregðu. Samt er þetta læknadóp í tísku hér á landi,
ef svo mætti að orði komast, en ég mæli sko ekki með því. Ekki nema þú hafir verið í sex
klukkustunda aðgerð og sért með 34 cm langan skurð á bakinu eða þannig.
Næstu dagar
liðu og ég svaf frekar mikið,enda þreytt
eftir svo langa svæfingu. Fljótlega fóru sjúkraþjálfarar að koma inn og láta
mig setjast upp og gera léttar æfingar, í fyrstu gekk þetta erfiðlega en smám
saman lærði ég að setjast upp með þennan skurð án þess að falla í yfirlið. Ég
þurfti að bíða í marga daga eftir að mega borða mat, en huggaði mig við það að
geta enn fengið mér shake. Og ég held ég hafi aldrei drukkið svo mikinn shake á
ævinni eins og á þessum tíma, og alltaf var hann jafn góður.
Spítalanum
fannst víst voða sniðugt að vekja mig alltaf á morgnana klukkan sex til að mæla
hita og blóðþrýsting og taka blóð. Það var svo oft tekið úr mér blóð eða
stungið í mig einhverjum nálum að ég hlaut að hafa litið út eins og einhver
sprautufíkill. Sem betur fer er ég ekkert hrædd við nálar eða blóð. Hitinn var
nokkurn veginn stöðugur en blóðþrýstingurinn lágur. Eftir rúma viku voru
læknarnir að hugsa um að útskrifa mig, en þegar þeir sáu svo hve lítið blóð var
í mér ákváðu þeir að ég þyrfti að vera þarna lengur. Ég fór einnig að fá útbrot
á bakið, svo ég fékk ofnæmiskrem og nýjan bol. Einn daginn voru læknarnir
alvarlega að íhuga að gefa mér blóð. Um morguninn var settur í mig æðaleggur,
en svo vildu læknarnir bíða enn lengur og sjá hvað gerðist. Nú fóru hjúkkurnar
að reyna að taka úr mér blóð til að athuga ef allt væri í lagi. En þar sem æðaleggurinn
var í hægri höndinni þar sem blóðið mitt
er venjulega tekið, þurftu þau að stinga í vinstri handlegginn. Í fyrstu
tilraunum tókst ekki að ná blóðinu, það tók þrjá hjúkrunarfræðinga og þrjú skipti áður en blóðið lét á sér kræla, en það
reyndist vera að fela sig í hnúunum. Ég
þakkaði bara mínum sæla fyrir að mamma hefði ekki séð þetta bras, það hefði
líklega liðið yfir konuna.
Á endanum
ákváðu læknar að gefa mér ekki blóð, en vildu endilega að ég fylgdist vel með
því eftir heimkomu. Eftir næstum tvær vikur fékk ég loksins að fara heim,
en þar sem ég þurfti enn svo mikla
aðstoð út af bakinu fékk ég að gista í foreldrahúsum. Ég fór að taka eftir því
hve erfitt var fyrir mig að gera einfalda hluti eins og að fara á klósettið eða
sitja upprétt. Ég tók upp á því að stelast í rúm systur minnar, sem er þægilegt
sjúkrarúm, og nota klósettstólinn á heimilinu. Ég hóaði einnig í
sjúkraþjálfarann minn, sem var ekki lengi að útvega mér hvíldarstól með háu
baki og höfuðpúða, og klósettsetu.
Sjúkraþjálfarinn á hrós skilið fyrir skjót viðbrögð, það varð strax
betra þegar ég fékk þessi hjálpartæki.
Mér hafði
verið sagt að þetta gæti verið vont, og var á sterkum verkjalyfjum. Ég fann þó
ekkert sérstaklega mikið til fyrstu vikurnar, en svo einn daginn vaknaði ég og
gat ekki hreyft mig fyrir verkjum. Þarna lá ég inni í stofu hjá mömmu og pabba
og það hreinlega þurfti að bera mig á klósettið. Eina sem ég gat gert var að
liggja og bryðja verkjalyf, og kvarta yfir því hvað mér leiddist. Ég þurfti
ekki lengur að sofa svona mikið eins og á spítalanum, en nú var það bakið sem
hindraði mig í því að gera það sem ég vildi gera.
Ég fór ekki
heim til mín fyrr en mánuði eftir aðgerð, þegar ég var orðin nógu góð til að
geta bjargað mér með eina aðstoðarkonu. Þá var ég hætt á sterku verkjalyfjunum,
en ég var bara frekar ánægð að losna við þau. Fyrir utan hægðartregðuna sem
fylgdi þeim þá gat þessi víma verið alveg steikt, til dæmis var ég einu sinni
nokkuð viss um að ég hefði séð löngu dauðan
hundinn minn labba inn til mín – creepy!
Nú eru
liðnir meira en tveir mánuðir frá aðgerð og ég er orðin nokkurn veginn góð.
Bakið kvartar af og til ef ég beiti því vitlaust eða er þreytt, en það þarf
bara meiri tíma til að jafna sig. Ég hlakka til að komast aftur í sjúkraþjálfun
í september og í nudd, því bakið er frekar stíft eftir allt baslið. Það er enn
smá skakkt, en alls ekki eins og áður, og ég sé alls ekki eftir því að hafa
farið í þessa aðgerð. Nú er ég bara með þennan minnisvarða á bakinu, 34 cm
langt ör, en heftin voru tekin úr skurðinum fyrr í sumar og hann hefur staðið
sig eins og hetja í að gróa. Þá er bara að bíða til jóla þegar ég má loksins
fara að æfa crossfit aftur.
Ummæli
Skrifa ummæli