Íslenskt táknmál í útrýmingarhættu: Hvað getum við gert?


-

Íslenskt táknmál (ÍTM) er jafnrétthátt íslensku skv. lögum.  Þrátt fytir það er þetta fallega mál í útrýmingarhættu að mati sérfræðinga, og hafa margir áhyggjur af því.

Ég var mjög ung þegar ég kynntist ÍTM fyrst. Það var þegar eldri systir mín missti heyrnina og öll fjölskyldan þurfti að læra íslenskt táknmál. Svo missti ég sjálf heyrnina og byrjaði formlega  að læra ÍTM á leikskóla fimm ára gömul. En þrátt fyrir að hafa byrjað að læra ÍTM ung finnst mér ég enn í dag ekki kunna málið nægilega vel. Það er líklega skólakerfinu að kenna, ég lærði bara ÍTM í sjö ár í grunnskóla og engar kröfur voru gerðar um að læra málfræðina. Í táknmálstímum lásum við upp sögur á táknmáli, spiluðum og spjölluðum. Kennararnir voru ekki táknmálsfræðingar og sumir höfðu jafnvel engin kennsluréttindi.  Það var ekki fyrr en í menntaskóla sem ég  áttaði mig á því hve takmörkuð þekking mín á ÍTM  væri. Ég ákvað nefnilega að taka stöðupróf í  ÍTM. Þegar ég spurðist fyrir hvernig best væri að undirbúa mig fyrir prófið var mér sagt að lesa einhverja eldgamla skræðu frá síðustu öld og tala táknmál.

Ég fann bókina, Daufir duga, á bókasafni skólans. Hún var mjög þunn og auðlesin, og ég var enga stund að klára hana. Næst fór ég að gúggla allskonar um ÍTM og náði að spjalla við nokkra táknmálstúlka og spyrja út í nokkur atriði varðandi málfræði táknmáls. Stöðuprófið var í  fjórum hlutum, tveim bóklegum og tvcim munnlegum, en alls voru þetta tólf einingar sbr. gamla einingakerfinu. Ég náði öllu þrátt fyrir stefnulausan undirbúning. enda fannst mér prófið eiginlega  bara létt.

Ég spáði ekkert frekar í eigin þekkingu á ÍTM eftir þetta, ekki fyrr en ég byrjaði í háskólanum. Þegar ég byrjaði í viðskiptafræði kom fljótt í ljós hve mörg tákn vantaði yfir einföld fræðiheiti og hugtök, t.d. sokkinn kostnaður, málskotaréttur, saksóknari, yfirtaka o.fl. Sum hugtökin voru þegar með tákn en táknin hreinlega pössuðu ekki við eiginlega merkingu orðsins þannig að við þurftum að finna betri tákn, t.d. dómstólar, birgðir, væntingar og neytandi. Táknið fyrir neytanda er t.d. eins og táknið að  borða, sem var svo út í hött að ég fæ enn kjánahroll þegar ég sé það, þannig ég breytti því í tákn sem er líkt og orðin nota og manneskja. Ég þurfti að finna tíma til að setjast niður með táknmálstúlkum og búa til tákn fyrir hugtökin, enda mikil tímasóun að vera að stafa þetta allt . Mér leið smá eins og ég væri í málvísindum en ekki viðskiptafræði, en svo fóru öll táknin að koma inn og ég verð að segja að þessar þýðingar virkuðu eins og glósur fyrir mér, enda þurfti ég að skilja samhengið til að finna táknin.

Einn táknmálsfræðingur hefur bent mér á að ég tali ekki eiginlegt ÍTM heldur einhverskonar blöndu af ÍTM og íslensku. Það er örugglega rétt í ljósi þess hvernig táknmálskennslu ég fékk sem barn, auk þess sem sjónskerðingin spilar líka inn í. En ég vil ekki að ÍTM deyi út, enda er þetta fallegt tungumál sem getur stórbætt lífsgæði margra.

 Hver á að kenna og hver á að læra ÍTM?

Nú er mikið rætt um að ÍTM sé í útrýmingarhættu. Ég  hef lítið annað til málanna að leggja en að þetta er sorgleg þróun. Ég tel að gera þurfi ríkari kröfur til heyrnarlausra barna, þau þurfa að læra táknmál eins og önnur börn læra íslensku. Ég þurfti að læra íslensku alla mína grunnskólagöngu og í menntaskóla, og meira að segja í viðskiptafræði þarf ég að læra ný íslensk hugtök og skrifa góða íslensku. Það eru ófáir kennarar í háskólanum sem gefa mínus fyrir stafsetninga- og málfarsvillur.

Einnig tel ég vera skort á skilningi og virðingu fyrir ÍTM. Ég veit um krakka sem vildu ekki læra táknmál í grunnskóla og komust upp með það. Einhver þeirra sjá á eftir því, en ástæðurnar fyrir því að þau vildu ekki læra táknmál er m.a. viðhorf skólakerfisins til þess og hvernig krakkarnir voru flokkaðir eftir alvarleika heyrnarskerðingar og hvort  þau voru einnig með fleiri  skerðingar. Ég er til dæmis með kuðungsígræðslu, íslenska er móðurmálið mitt og ég er líka lögblind. Síðasta árið mitt í „táknmálsnámi“ var ég ein í tímum og ég lærði eiginlega ekkert nýtt. Á unglingadeild hætti táknmálskennsla en ég lærði íslensku, ensku, dönsku og frönsku og gekk mjög vel. En sumir krakkar fengu að sleppa dönsku til að læra ÍTM, það var víst mikilvægara fyrir þau að kunna ÍTM. Ég hefði ekki viljað sleppa dönsku en mér finnst samt að ÍTM-kennsla ætti að vera í forgangi.

ÍTM er lifandi tungumál eins og íslenska og við Íslendingar ættum að vera stolt af því. Þrátt fyrir að elstu heimildir um ÍTM nái aðeins aftur til miðrar 19. aldar og að ÍTM var bannað á einu tímabili þá  hefur ÍTM tekist að þróast. Málfræðin er flókin, ÍTM hefur að geyma orð  og orðatiltæki sem ekki eru til á íslensku og það er meira að segja kerfi til að skrá niður tákn. Þetta þurfum við að kenna börnunum okkar og ég tel litlu máli skipta hvort þau séu heyrnarlaus eða ekki. Það er bara skrýtið ef ekki allir Íslendingar geti talað saman.

Ég hef oft heyrt því fleygt að það séu ekki til kennarar til að kenna öllum þessum börnum ÍTM. En ég tel að í fyrsta lagi þá ætti það ekki að vera mikið vandamál í ljósi tækninýjunga. hér gæti gefist tækifæri til nýsköpunar og þróunar á kennsluaðferðum. Í öðru lagi þá er sú skoðun ríkjandi meðal heyrnarlausra að aðeins þau mega kenna táknmál, sem er svolítið spes þar sem fáir heyrnarlausir vilja yfirhöfuð gera það. Þetta finnst mér furðulegt viðhorf, allir ensku- og dönskukennararnir mínir voru t.d. Íslendingar. Svona viðhorf er augljóslega ekkert nema hindrun, þar sem það takmarkar verulega bæði fjölda og gæði táknmálskennara. Ég veit um heyrandi fólk sem talar reiprennandi ÍTM. fólk sem ég hefði haldið væri heyrnarlaust ef ég hefði ekki vitað betur. Þetta fólk gæti vel kennt ÍTM.

Við getum öll haft áhrif

Þegar öllu er á botninn hvolft tel ég að gera þurfi róttækar viðhorfsbreytingar, bæði hjá heyrandi og heyrnarlausu fólki. Gera þarf ríkari kröfur til heyrnarlausra barna, táknmál er tungumál en ekki einhver krúttlegur leikur. Börn sem eru flink í eigin móðurmáli gætu átt auðveldara með að læra önnur mál og komast jafnvel lengra í lífinu.

Til að vernda táknmálið okkar þurfum við öll að standa saman og leggja okkar af mörkum. Það er ljóst að einföld lagasetning dugir ekki til, það þarf framfylgni, viðhorfs- og skipulagsbreytingar. Það er ekki helduur nóg að sitja bara og væla yfir því að ÍTM sé í útrýmingarhættu, það gerist ekkert af sjálfu sér.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Guest Blogger: Embracing Adventure

Baráttan við bakið

Draumurinn um háskólagráðu