Baráttan við bakið
Hryggjarskekkja
(e. scoliosis) er eitthvað sem margir kannast við. Það er eðlilegt að vera með
örlitla skekkju, svo lengi sem hún fer ekki yfir fjörutíu gráður. Ef skekkjan
fer yfir þau mörk getur hún haft heilsuspillandi áhrif og þá þarf að athuga með
hana.
Ég var bara
krakki þegar fyrst fór að örla á hryggjarskekkju hjá mér. Í kjölfarið var ég
send í röntgen-myndatöku. Fyrstu myndirnar staðfestu smá skekkju, en ekkert sem
læknirinn taldi alvarlegt. Eftir það hef
ég verið send nokkrum sinnum í viðbót í röntgen til að fylgjast með bakinu. Það
eru nefnilega margir með minn sjúkdóm sem fá slæma hryggjarskekkju, en það er
ekki vitað fyrir víst hvers vegna. Tilgátur eru uppi um að líkami okkar hafi
ekki nægilegan styrk til að halda hryggnum uppi og að taugakerfið spili þar inn
í, en það hefur þó ekki verið almennilega sannað svo ég viti til.
Sjúkra- og
iðjuþjálfarar hafa haft auga með mér í gegnum árin, kennt mér rétta
líkamsbeitingu og útvegað mér ýmis hjálpartæki á borð við hjólastól, vinnustól
og spelkur. Stólarnir eru með góð bök og sæti sem eiga að tryggja að ég sitji
rétt, við vonuðum líklega öll að með því að velja vandlega bök og sæti myndum við draga úr frekari skekkingu,
en svo var ekki.
Ég tók mér
smá langt hlé frá sjúkraþjálfun þegar ég byrjaði í háskólanámi. Auk þess að
vera í fullu námi var ég byrjuð í Crossfit og taldi litla ástæðu til að vera að
mæta í sjúkraþjálfun. En svo einn daginn spurði yfirþjálfarinn hvort ég væri
dugleg að teygja, sem ég varð að játa að ég var ekki. Þá ráðlagði hún mér að leita til sjúkraþjálfara og fá almennilegar
teygjur. Fyrir utan það hve mikilvægt er að teygja eftir æfingar þá er enn mikilvægara fyrir fólk sem situr mikið að
gera reglulegar teygjuæfingar. Þegar við
sitjum kreppum við vöðva í fótleggjum, og sé dagleg seta mjög mikil getur
vöðvinn frá kálfa upp að hnjám orðið styttri, og valdið því að göngulagið verði
eins og hjá mörgæsum. Ég get enn gengið með stuðning, en á þessum tímapunkti
voru ökklarnir orðnir mjög stífir og það var ekkert að hjálpa jafnvæginu sem
var þegar orðið mjög lélegt. Ég gat því ekki annað en hlustað á yfirþjálfarann
og leitað hjálpar sjúkraþjálfara.
Ég heyrði í
gamla sjúkraþjálfaranum mínum á Æfingarstöðinni og áður en ég vissi af var ég
farin að mæta reglulega í sjúkraþjálfun til að gera teygjur og
jafnvægisæfingar. Sjúkraþjálfarinn fór þá að velta fyrir sér hvenær ég hefði
seinast mætt í röntgen á bakið. Hún athugaði málið hjá lækninum sem komst að
því að það væri of langt um liðið síðan síðast. Það var því pantaður tími fyrir
mig í röntgen og ég átti að mæta nokkrum vikum síðar.
Eftir
myndatöku liðu nokkrar vikur þar til ég átti tíma hjá lækninum. Þá kom í ljós
að enn hafði hryggjarskekkjan versnað, og vildi hún láta reyna á þann möguleika
að fara í aðgerð. Ég fékk því tíma hjá bæklunarlækni á spítalanum. Aftur tók
við nokkurra vikna bið og ég vissi ekkert hvort ég væri að fara í aðgerð á
næstunni eða ekki.
Svo rann
dagurinn upp og ég þurfti að skrópa í tíma í skólanum til að hitta lækninn.
Hann sagði mér að ég væri með hryggjarskekkju upp á meira en fimmtíu gráður.
Hann hafði á orði að slæm hryggjarskekkja væri ekki óalgeng hjá fólki í
hjólastól, en yfirleitt sé lítið gert í því. Í mínu tilfelli er ein skekkjs
neðst á hryggnum og önnur efst, sem
betur fer ekkert nálægt lunganu. Hefði skekkjan verið nærri lunganu hefði
aðgerð mögulegaverið talin of áhættusöm. Læknirinn spurði hvort ég fyndi ekki fyrir bakverkjum? Jú, þetta er kannski ekki nístandi sársauki, en ég finn fyrir óþægindum og þegar ég er þreytt eða undir mikilli pressu þá verkjar mig neðst og efst á bakinu. Læknirinn kinkaði kolli og fór að telja upp kosti þess
að fara í aðgerð og ræddi áhættuþætti. Þetta er 6 til 8 tíma skurðaðgerð þar
sem hryggurinn er festur á sinn stað. Nokkuð löng aðgerð þar sem ég mun líklega
missa mikið blóð, en ég hef þó áður farið í svona langa aðgerð þegar ég fékk
kuðungsígræðslu. Læknirinn ræddi einnig hvað gæti gerst ef ég færi ekki í
aðgerð. Þá myndi hryggurinn líklega skekkjast enn meira og á verri stöðum, ég
gæti fengið slæma bakverki, líffærin myndu færast og ég gæti jafnvel misst
styrk í höndum. Þetta síðasta hitti alveg í mark, ég vil ekkimissa styrk í
höndum því þá gæti ég ekki lengur lyft lóðum eða talað táknmál.
Hver er þá
áhættan við að fara í aðgerð? Það er alltaf einhver áhætta að fara í svona
stóra aðgerð, en læknirinn taldi mig vera í góðu formi miðað við aðstæður og
því lítil áhætta á ferð. Eini ókosturinn sem olli mér verulegum áhyggjum var að
eftir aðgerð má ég ekki stunda líkamsrækt í þrjá mánuði og Crossfit í hálft ár.
Þetta var vægt sjokk, en eftir að hafa íhugað málið betur komst ég að því að
kostirnir við aðgerðina vega þyngra heldur en ókostirnir. Ég gæti jafnvel orðið
betri í lyftingum þegar ég loks má æfa aftur, og þetta er yfirleitt fljott að
koma. Ég ákvað því að horfa til lengri tíma og hætta að væla yfir skammtíma
Crossfit-banni.
Eftir
viðtalið við lækninn tók við löng bið eftir því að fá tíma í aðgerð. Við höfðum
rætt um að hafa aðgerðina á sumartímanum, þegar ég væri ekki á fullu í
skólanum. En læknirinn gat ekki gefið
upp tímasetninguna strax.
Svo leið og
beið og maímánuður kom. Þá fór ég að spyrjast fyrir hvenær ég ætti að mæta í
þessa aðgerð. Fyrst spurði ég sjúkraþjálfarnn, svo lækninn á Æfingarstöðinni og
á endanum hringdi ég á spítalann, en enginn
vissi neitt. Að lokum fékk ég símatíma hjá lækninum sem var viku síðar.
þá kom i ljós að ég ætti að fara í aðgerð í júni.
Allt þetta
ferli frá því sjúkraþjálfarinn fór að velta fyrir sér ástandinu á bakinu og þar
til ég fékk að vita hvenær ég ætti að fara í aðgerð hefur tekið rúmt ár. Upplýsingaflæðið
í kerfinu er alls ekki þjált og ég er hugsi yfir því hve seinlega allt gengur. En
nú er allt komið á hreint, ég veit hvenær ég á að fara í aðgerð. Næstu vikur taka
við stífar æfingar í sjúkraþjálfun, en
það myndi hjálpa að vera í góðu formi þegar farið er í svona stóra aðgerð.
Ég wer líka að reyna að róa samviskuna yfir því að mega ekki æfa í marga mánuði
eftir aðgerð, svo lífið er núna.
Hlúum vel að heilsunni. annars gæti
það komið í bakið á okkur.
Ummæli
Skrifa ummæli