Nýárspístill Slaugu

„Úff, ég vona að ég sé ekki fallin“ sagði ég við túlkinn eftir síðasta lokapróf haustannarinnar. Ég dæsti og hugsaði með sjálfri mér: fallin í tölfræði eða fallin í lífinu?

Ég ákvað að vera ekkert að spá frekar í þessu og drífa mig að pakka. Ég ætlaði nefnilegaað eyða jólunum á Spáni með fjölskyldunni. Þar ætluðum við að heimsækja ættingja, slaka á og njóta lífsins. Og í leiðinni ákvað ég að taka mér frí frá skjánum, ekkert Facebook, Twitter eða mail í bili. Bara textaskilaboð og smá Instagram. Ekkert óþarfa áreiti, bara slöku

Taugarnar höfðu vægast sagt verið þandar síðustu vikur. Til að byrja með tók ég þá ákvörðun að sækja um stúdentaíbúð, enda komin með meira en nóg af að búa í  foreldrahúsum. Ég sá einnig fram á að vera í skóla næstu árin, svo stúdentaíbúð var kannski bara málið. Auk þess er ég alls ekki ein af þeim sem vilja helst bara kaupa sitt eigið hús, en það er víst önnur saga. Áður en ég vissi af var ég farin að skoða íbúðir og bara búin að finna draumaíbúðina. Það að vera á biðlista eftir íbúð er í sjálfu sér langt og flókið ferli en svo bættist við að ég þurfti að reyna að fá aðstoð á nóttunni. Ég var nefnilega einungis með 16 klst á sólarhring í aðstoð, sem er alls ekki nóg fyrir mig til að lifa sjálfstæðu lífi. Þannig að nánast um leið og ég sótti um íbúð sótti ég um hækkun á NPA-samningnum. Þetta var mjög stressandi, enda vissi ég ekki nema ég fengi bara annaðhvort eða hvorugt. Ég hafði nú ekki beint haft svo góða reynslu af kerfinu.

Tíu dagar í algerri slökun, góðu veðri með góðan mat og góðum félagsskap var vist það sem ég þurfti á að halda. En svo byrjaði brjalæðið aftur, eiginlega strax og ég lenti aftur á klakanum.

Enn engin einkunn komin í fjárans tölfræðinni en hin fögin eru í höfn. Umsókn um íbúð samþykkt og íbúð úthlutað. Og svo var þarna póstur frá NPA-ráðgjafanum, sem tilkynnti að okkur hefði tekist það. Ég fæ víst sólarhringsaðstoð.

Ég trúði varla því sem ég sá, enda búin að búa mig undir það versta. Allt virtist svo gott sem frágengið, eina sem vantar væri að skrifa undir samninga, pakka, ráða fleiri aðstoðarkonur og flytja. Það er ljóst að árið 2019 verður merkilegt ár hjá Slaugu.

Að lokum er vert að minnas á að NPA var bara lögfest árið 2018, eftir margra ára baráttu fatlaðs fólks á Íslandi. Fyrir tíma NPA hefði ég mögulega ekki getað flutt í eigin íbúð að eigin vali, fengið frábært aðstoðarfólk að eigin vali eða yfirhöfuð þá aðstoð sem ég þarf. Og það versta sem ég get hugsað mér að hefði gerst væri að lenda á sambýli, að fá ekki að vera frjáls og sjálfstæð kona. Ég er því glöð að vera uppi á þessum merku tímum og ætla mér að halda áfram að berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks. Því þó að ég sjálf sé komin með íbúð og NPA þýðir það ekki að allt annað fatlað fólk geti það. Enn er langt í land, í raun hættir baráttan aldrei. Þú uppskerð það sem þú sáir, en þú þarft líka að annast plöntuna sem þú sáðir.

Slauga mun halda áfram að blogga um nýja heimilið á nýju ári. Stay tuned :)

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Grunnskólaárin sem í móðu #GameOver

Umræðan um starfsgetumat: Ef þú getur gert 9 armbeygjur áttu að vinna 90% starf

Crossfit-æfingar fyrir sitjandi fólk