Crossfit-æfingar fyrir sitjandi fólk




,,Heyrðu, helduru að ég gæti æft Crossfit?" spurði ég vinkonu mína í janúar 2017.
,,Uuuu, já!" var svarið frá vinkonunni, sem hafði verið á fullu í Crossfit um tíma.

Það hefur varla farið framhjá neinum að ég er mikið fyrir íþróttir. Ég  elska að taka á því, hreyfa mig og vera í góðu formi. Þegar ég var að alast upp flakkaði ég á milli íþrótta, fimleikar, sund, fótbolti, hestanámskeið, jóga, skák...

Á endanum prófaði ég þrekíþróttir. Ég fór að mæta í einkatíma í víkingaþreki og boxi og það var þá sem ég uppgötvaði hve mikil snilld þrekíþróttir eru og ákvað að ég vidi halda áfram á þeirri braut. Eftir nokkra mánuði í einkaþjálfun fór ég í lyftingar. Ég fílaði alveg lyftingarnar en andinn í liðinu var svo slæmur að ég hætti eftir nokkra mánuði og færði mig yfir í Crossfit. Nú hef´ég stundað Crossfit í næstum tvö ár, og er mjög ánægð þar.

Ég var þó efins um að þetta væri íþrótt fyrir mig til að byrja með. Vinkonur mínar æfðu Crossfit og voru sífellt að tala um hve erfitt þetta væri. En svo ákvað ég að láta reyna á þetta og eftir samráð við eina vinkvenna minna skráði ég mig í Crossfit. 

Fyrsta hálfa árið  var ég með einkaþjálfara´á æfingum sem aðlagaði æfingarnar að mér, bjó til prógramm og leiðbeindi mér. Eftir það fór ég að mæta sjálf á æfingar án þjálfara, enda gerir NPA mér það kleift.

Það sem ég hef lært í gegnum tíðina er að ekki allir þurfa að fylgja nákvæmlega sama prógrammi 100%. Við eigum að gera það sem við getum og gefa allt sem við eigum. Þegar ég lendi í æfingum sem reynast mér erfiðar vegna fötlunar, staldra ég við og hugsa: Hvert er markmið þessarar æfingar? Hvaða leið get ég farið til að ná markmiðinu?

Ég er nefnilega með mjög lélegt jafnvægi og get t.d. ekki hlaupið eða sippað. En það er hægt að aðlaga æfingar að mér, enda er ég með styrk í höndum og fótum.

Nokkrar vel valdar æfingar

Mig langar að deila nokkrum æfingum hér sem ég hef aðlagað að minni getu. Þær gætu jafnvel hentað fleirum og þess vegna langar mig að fara aðeins í þær.

Upphífingar/Chest2Bar

Gömlu góðu upphífingarnar! Þjálfarar mínir í gegnum tiðina lögðu höfuðið í bleyti í hvert sinn sem þessi æfing kom til sögu. Þetta er bakæfing, en á sama tíma rosaleg jafnvægisæfing. Ég get híft mig upp úr stólnum og hef gert það lengst af, en svo byrjaði ég að æfa á stað þar sem stöngin er föst hátt uppi í lofti. Ég er 156 cm í fullri lengd, en þar sem ég sit er ég enn minni, svo ég næ ekki í stöngina nema að klifra upp á kassa og teygja mig í hana. Sem er augljóslega ekki að fara að ganga.

Nú eru góð ráð dýr, en  upphífingar eru mjög oft á dagskrá í Crossfit enda góð æfing. Þá dettur mér eitt í hug, af hverju að standa og hífa sig upp þegar meginmarkmiðið er að láta reyna á bak?

Ég náði í  TRX handföng og lét færa þau niður, lagðist svo á bakið og fór að hífa mig upp. Einfalt, en samt erfið æfing!


Hér er video af æfingunni. Passið að olnbogarnir séu meðfram síðunni, fæturnir beinir og kyrrir og reynið að fara hægt upp og svo niður. Ég met gæði meira en tíma, enda fæst meira út úr æfingum sem eru gerðar vel en æfingum sem eru gerðar í flýti.



Deadlift

Júbb, þessi æfing þar sem þarf að standa! Enn og aftur bakæfing, en nú á að lyfta lóð upp að mitti. Ég hunsaði þessa æfingu í fyrstu, en þegar hún fór að koma ítrekað fram í WOD-unum ákvað ég að þetta gengi ekki lengur. Ég gúgglaði því deadlift fyrir sitjandi fólk og uppgötvaði sniðuga aðferð.

Málið er að setjast á lágan kassa, nógu lágan til að geta hallað sér ögn fram og gripið ketilbjöllur eða handlóð. Markmiðið er að lyfta handlóðum upp með síðunni, handleggir beinir og bringan fram. Spenna bak og brjóst en passa að bakið sé beint.



Hnébeygjur

Ég var að blaðra um Crossfit við vinkonu mína um daginn þegar ég minntist á að hafa gert slatta af hnébeygjum. Hún horfði hugsi á mig og spurði svo vantrúuð: Hnébeygjur? Þú?

Ég var bara orðin svo vön hnébeygjunum mínum að ég var búin að gleyma hvernig upprunalega útgáfan er. Svo hér kemur mín útgáfa:

Það er hægt að gera hnébeygjur á allskonar vegu. Ég næ oft í kassa eða bekk og sest á hann, helst í þeirri hæð að hnén séu 90°, en það má alveg setjast bara beint á gólfið og hafa æfinguna ögn erfiðari. Svo er bara að standa upp og setjast aftur niður, passa að hnén séu aðskilin og beint fyrir ofan hælana. Best að fara rólega að, ekki hlamma sér aftur niður. Svo er hægt að þyngja æfinguna örlítið með þvi að bæta við þyngd, t.d. þungu belti eða vesti. Þá er þetta líka fín jafnvægisæfing, sérstaklega með þyngingu!



Tær í slá/Toes2Bar

Ég kalla þessa æingu fótalyftur. Þetta er maga og læraæfing og í raun ómögulegt fyrir mig að gera upprunalegu útgáfuna. En það er samt hægt að gera hana.

Ég leggst á bakið og fæ einhvern til að halda stöng fyrir ofan mig. Svo lyfti ég fótum upp og aftur niður, spenni maga og lærvöðva og reyni að láta tær snerta stöng. Þetta er fokking erfitt, ég var lengi að ná tökum á þessari. Svo má sleppa stöng og bara lyfta fótum eins hátt upp og þú getur, bara passa að fæturnir séu beinir! Og plís farðu rólega að, ekki skella fótunum strax niður.

Hér er video af mér að gera þessa æfingu án þess að nota stöng.




Armbeygjur

Vegna lélegs jafnvægis get ég ekki nýtt hnén til að styðja við. Ég leggst því bara beint niður á magann og bisa svo við að hífa mig upp. Þetta reynir á bak, handleggi, brjóst og læri, enda margir vöðvar sem þarf að spennast  til að koma í veg fyrir að veltast yfir á bakið. Og já, ég hef oft oltið á bakið við þetta, velkominn í mitt líf!



WOD í boði Slaugu Slamm

Að lokum er hér WOD handa þér í boði Slaugu:

AMRAP (As Many Repetitions As Possible) 25 mínútur

10x Deadlift
10x Hnébeygjur
10x Upphífingar
10x Tær í slá:
10x Armbeygjur



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Guest Blogger: Embracing Adventure

Baráttan við bakið

Draumurinn um háskólagráðu