Slauga skellir sér í Reykjavíkurmaraþonið
Slauga og aðstoðarkona úti að hjóla. |
Nei sko, Slauga var að skrá sig í Reykjavíkurmaraþonið!
Þetta verða 10 hressilegir kílómetrar, en ég ætla að
hlaupa til styrktar Fjólu, félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Því þetta félag er mér afar kært.
En hvað er Fjóla og afhverju er Slauga að rúlla fyrir þetta
félag?
Fjóla, áður Daufblindrafélag Íslands, var stofnað í mars
1994. Félagið hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og menningu fólks
sem bæði sér og heyrir illa. Um er að ræða afar lítinn minnihlutahóp sem er
mjög jaðarsettur í samfélaginu. Þar sem þetta fólk er með tvöfalda skerðingu
þarf það gjarna mikla hjálp og aðlögun til að geta tekið þátt í samfélaginu og
lifað mannsæmandi lífi til jafns við aðra. Eins og kerfið er núna þarf þetta
fólk þó að leita á marga mismunandi staði og jafnvel berjast fyrir því að fá
lágmarks aðstoð, eins og ég hef fengið að reyna á í túlkamálinu svokallaða. En
nýlega var þó stofnað greiningarteymi sem á að hjálpa fólki að fá greiningu í
samstarfi við ýmsa sérfræðinga og ég veit að margir binda vonir við þetta teymi.
Í dag eru rúmlega 20 félagsmenn í Fjólu sem eru daufblindir,
en auk þess geta aðrir sem ekki eru daufblindir gerst styrktarfélagar. Vegna
smæðar sinnar hefur Fjóla ekki verið eins virkt og félagið vill vera, enda
veltur reksturinn aðallega á styrkveitingum.
Ég var mjög ung þegar ég kynntist félaginu. Það var svo í
gegnum Fjólu sem ég komst fyrst norrænar sumarbúðir fyrir daufblind ungmenni og
kynntist öðru ungu fólki á svipuðu reki og ég, en þess má geta að við erum
aðeins tvær sem erum í Fjólu á aldrinum 18 – 35. Einnig er það Fjólu að þakka
að ég hef einhverja grunnþekkingu á réttindum fatlaðs fólks. Með þessari
þekkingu og reynslu af málefnum daufblindra einstaklinga finn ég að ég er ekki
ein og er enn ákveðnari í að lifa lífinu og gera hluti eins og að stunda háskólanám
og CrossFit.
Ég hef setið í stjórn Fjólu síðan 2015 og auk þess unnið þar
í þrjú sumur í röð, 2014 – 2016. En nú er enginn starfsmaður innan félagsins og
ég veit að margir félagsmanna finna sárt fyrir því. Þess vegna ætla ég að rúlla
til styrktar Fjólu, ég vil að félagið fái að lifa og blómstra og að daufblint
fólk á Íslandi fái að lifa mannsæmandi lífi og vera stolt af því að vera
daufblint.
Viltu styrkja Fjólu? Hér getur þú heitið á Slaugu.
Hér getur þú einnig kynnt þér nánar hvað daufblinda er.
Ummæli
Skrifa ummæli