Að læra tungumál

Slauga á Stykkishólmi.


Hola!

Í síðasta pístli ræddi ég um mikilvægi þess að þekkja eigin mörk og þora að biðja um aðstoð. Ég tók það samt skýrt fram að það væri ekkert að því, t.d. gætir þú kannski ekki gengið upp stiga en þá ættir þú að geta rúllað upp ramp eða tekið lyftu, í versta falli gætir þú beðið einhvern að bera þig upp. Það ættu að vera fleiri leiðir fyrir þig að komast áfram, að ná markmiðinu.

Kan du inte? Vil du inte? 

Lesvélin hennar Slaugu.

Í þessum pístli langar mig að fjalla um það að vera daufblind og læra tungumál. Eins og ég hef áður greint frá þá missti ég heyrnina í kringum 5 ára aldur. Þá kunni ég að tala íslensku og hafði lært smá íslenskt táknmál af eldri systur minni, þó að íslenskuorðaforði 5 ára barns væri raunar ekki mikil. Ég t.d. sagði alltaf „aði“ þegar ég notaði sagnorð í þátíð, svo dæmi sé nefnt. Þrátt fyrir það lærði ég meira í grunnskóla. Ég var reyndar mjög latur nemandi fyrstu 3 árin, nennti sjaldan að lesa og var alltaf úti að leika. Eina sem ég nennti að læra var stærðfræði, enda aðallega tölur. En ég tel að þarna hafi sjónskerðingin spilað inn í, ég varð fljótt þreytt að lesa texta og skoðaði því oftast bara myndirnar í kennslubókinni, ef þær voru einhverjar og reiknaði dæmin. Átta ára gömul fékk ég borð sem ég gat lyft upp að andlitinu, svo stækkunargler og svo varð bylting!

Já, það varð tæknibylting því ég fékk sérstakt lestæki í hendurnar. Ég gat sett bók í það og stækkað textann sem svo birtist á skjá fyrir framan mig. Allt í einu var ég farin að lesa á fullu og áður en ég vissi af var ég orðin einn helsti nörd bekkjarins, komin langt á undan hinum í heimalestri. Íslenskukennararnir tóku þá upp á því að láta mig skrifa eigin sögur, sem mér þótti afar skemmtilegt.

Tíu ára byrjaði ég að læra ensku. Mér fannst hún leiðinleg og rétt skreið í gegnum hana fyrsta árið. En enskukennarinn minn ætlaði ekki að gefast upp á að reyna að kenna mér málið, svo hún lét mig lesa bækur á ensku auk þess sem annar kennari var fenginn til að kenna mér framburðinn. Ég heyri nefnilega ekki málið og get ekki lesið texta í sjónvarpi, svo það var ljóst að ég gæti ekki lært ensku með því að horfa á sjónvarp eins og aðrir. En ég gat lesið bækur og það var hægt að reyna að útskýra framburðinn fyrir mér í ró og næði, og  smám saman vandist ég þessu. Fyrst var ég látin lesa upp og túlka léttar barnasögur úr ensku yfir á íslensku en svo urðu bækurnar þykkari og erfiðari og einn daginn var ég farin að ná mér í bækur á ensku til að lesa mér til skemmtunar. Á sama tíma lærði ég einnig smá kanadískt táknmál, enda kunni einn kennarinn það.

I'm deaf, not dead!

Það var þó talsvert auðveldara að læra dönsku, enda fannst mér danskan líta svipað út og íslenskan auk þess sem ég hafði oft fylgst með ömmu minni leysa danskar krossgátur. Kannski er eitthvað dönskublóð í mér, en ég átti í engum vandræðum með að ná málinu og fékk sjaldan undir 9 í einkunn í dönsku.

Nu skal vi snakke dansk...

Þegar ég var 14 ára byrjaði ég svo að læra frönsku. Ég hafði áhuga á málinu enda þekkti ég nokkra Frakka og langaði til að kunna þeirra mál. Við fyrstu sýn virtist franskan eins og geimvísindi, en svo kom annað á daginn. Málfræðin sjálf er frekar einföld miðað við íslensku, og mér fannst bara mjög gaman að reyna að læra framburðinn, það tók mig heil 5 ár að læra að skrolla R!

J'aime les lingues neuvelles.

Ég hélt áfram að læra þessi fjögur tungumál í menntaskóla og var á opinni braut með kjörsvið í íslensku, íslensku táknmáli og dönsku auk hagfræði og bókfærslu. Um svipað leyti vann ég við þýðingar á dönsku og ensku og var farin að lesa bækur á sænsku mér til skemmtunar. Mér finnst nefnilega frekar auðvelt að skilja sænsku og norsku þegar ég kann bæði íslensku og dönsku, enda eru þetta skyld mál.

Ástæðan fyrir því að ég er að rifja þetta upp er ekki til að hreykja mér af því að vera svo klár. Ég vil koma því á framfæri að tungumál lærast ekki í gegnum eyrun, heldur hausinn. Ég fann leið til að læra íslensku og erlend mál, jafnvel þó ég hafi aldrei heyrt ensku eða dönsku eða frönsku. Ég fékk viðeigandi hjálpartæki og aðstoð og er afar þakklát fyrir að kennararnir mínir gerðu sömu kröfur til mín og annarra nemenda. Í dag þarf ég nefnilega að lesa heilu kennslubækurnar á ensku fyrir háskólann og ein besta vinkona mín er Svíi, en hvorugt hefði gerst ef ég hefði ekki fengið tækifæri til að læra önnur tungumál. Þessa dagana er ég að æfa mig í sænsku táknmáli, sem mér finnst bara mjög spennandi. 

Eins og máltækið segir: Where there is a will, there is a way.

Tack så mycket!

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Guest Blogger: Embracing Adventure

Baráttan við bakið

Draumurinn um háskólagráðu