Eurovision-ævintýri Slaugu
Slauga á rúntinum í Bakú. |
Gleðilega Eurovision-viku!
Ég hef í sannleika sagt verið algjör Eurovision-aðdáandi frá því ég man eftir mér, sem hefur líklega ekki farið framhjá mörgum. Eftirminnilegasta Eurovision-árið mitt var samt 2012, árið sem Loreen kom, sá og sigraði keppnina með hinu magnaða lagi Euphoria. En þetta er samt ekki eina ástæðan fyrir því að 2012 er algjört uppáhald, heldur einnig það að ég fékk að fara og sjá keppnina í Bakú.
Já, þú last það rétt, ég flaug alla leið til Azerbaijan bara til að upplifa alvöru Eurovision. Sagan á bak við er samt svolítið löng, og því datt mér í hug að rifja hana upp hér í tilefni þess að nú er Eurovision-vika.
Handritakeppni fyrir hreyfihömluð börn
Ég var 16 ára unglingur, nýbúin að gefa út bókina mína Undur og Örlög og að klára grunnskólann. Einn daginn kem ég heim úr skólanum og mæti mömmu minni.,,Hey, Klara frænka hringdi," segir mamma og ég lít á hana, jæja, enn ein frænkan að hringja? En nei, þetta var ekki allt og sumt:
,,Það er einhver handritakeppni í gangi hjá einhverjum samtökum í Axerbaijan," heldur mamma áfram ,,nokkur Evrópulönd eru að taka þátt, krakkarnir í hverju landi þurfa að skrifa ritgerð sem tengist Azerbaijan, og einn sigurvegari verður valinn úr hverju landi til að fara og sjá Eurovision í Bakú."
,,Jahá?" segi ég og nú er áhugi minn vakinn.
,,En krakkarnir þurfa að vera hreyfihamlaðir og því er ÖBÍ að kalla eftir góðum ritgerðum. Fresturinn rennur út eftir tvo daga."
,,Heyrðu, ég skal skrifa eitthvað!" segi ég strax og læt það ekki á mig fá þó að fresturinn sé fjári stuttur. Ég ÆTLAÐI að komast til Bakú!
Við tóku tveir dagar þar sem ég hugsaði varla um annað en ritgerðina mína. Ég mætti í skólann, þraukaði þar þangað til honum lauk og rauk svo heim að vinna. Ég eyddi góðum tíma í að ræða við fjölskylduna til að fá hugmyndir, fékk þau til að prófarkalesa og þýða yfir á almennilega ensku. Amma mín Áslaug sá um þýðinguna og ég er henni enn mjög þakklát.
Á endanum var ég búin að setja saman einhverja krúttlega smásögu, þar sem ég gerði heiðarlega tilraun til að tengja Ísland við Azerbaijan. Ég sendi ritgerðina inn kortér í deadline og var bara frekar sátt með afraksturinn.
Nokkru síðar fékk mamma annað símtal. Handritið mitt var svo gott að ég fékk að fara út. Ég var auðvitað í skýjunum með það og fór þegar að skipuleggja hver ætti að koma með mér, en ég mátti taka einn aðstoðarmann með mér.
Azerbaijan, here I come!
Við vorum í azerbaísku sjónvarpi! |
Ferðin til Azerbaijan heppnaðist mjög vel. Ég þurfti að millilenda tvívegis á leiðinni til Axerbaijan, fyrst í Noregi og svo í Tyrklandi. Svo tóku við nokkrir skemmtilegir dagar þar sem ég kynntist skemmtilegum krökkum, við skoðuðum söfn, fórum á ströndina, fórum í kvöldsiglingu, lékum okkur, horfðum saman á undankeppnirnar í sjónvarpinu með fullt af nammi og snakki og vorum svo bara sjálf í azerbaísku sjónvarpi! En það besta var auðvitað lokakvöldið, þegar við fórum í Kristalhöllina!
Bakú |
Keppnin hófst um miðnætti að staðartíma, og ég man hvað það var mikil öryggisgæsla við innganginn. Inni í sjálfum salnum var mikil stemning, LED-skjáir út um allt og öllu til tjaldað á sviðinu. Ég reyndar sá hvorki á skjána né sviðið, en mér var eiginlega alveg sama. Ég heyrði tónlistina, sá ljósin og upplifði þessa svakalegu stemningu.
Strax eftir keppnina þurfti ég hins vegar að fara upp á flugvöll og heim. Ég var ekkert voða kát að vera að fara heim strax, eða þangað til ég rakst á íslenska Eurovision-teymið. Þarna hitti ég Grétu Salóme, Jónsa og Friðrik Ómar, öll á leið með sömu vél til Tyrklands. Það var sko alls ekki slæmt!
Ferðafélagarnir í Bakú. |
Að lokum langar mig að enda þessa færslu á því að deila ritgerðinni sem kom mér út. Hér að neðan er íslenska útgáfan, en þetta er í raun smásaga um tengsl þjóðanna tveggja.
(Re)discover Azerbaídsjan
Þegar
ég var í 7. bekk heyrði ég fyrst um Azerbaídsjan. Við vorum að læra um Evrópu í
landafræði og áttum að velja eitt ákveðið land til að skrifa um. Það var einn
strákur í bekknum sem skrifaði um Azerbaídsjan. Svo áttum við að bjóða
foreldrum okkar í kaffi og kynna afraksturinn.
Ég
sat fremst í kennslustofunni og hlustaði á hverja kynninguna á fætur annarri,
um mörg ólík lönd víðsvegar í Evrópu. Þegar leið á tímann kom strákurinn fram
og kynnti okkur fyrir Azerbaídsjan. Ég hafði aldrei áður heyrt minnst á það
land og áhugi minn vaknaði. Þetta var eitthvað nýtt fyrir mig, sjálfan
landafræðisnillinginn. Þegar kynningin hófst missti ég allt tímaskyn og í
huganum var ég stokkin upp í næstu flugvél á leið til Azerbaídsjan.
Það
var sól og heiður himinn og flugvélin sveif hátt fyrir ofan Azerbaídsjan. Háir
fjallstindar risu tignarlega til himins og í fjarska glampaði á Kaspíahafið þar
sem nokkrar eyjar risu úr sæ. Sjónvarpsskjárinn fyrir framan mig sýndi
landakort. Þarna var Azerbaídsjan, á miðjum skjánum, umkringt öðrum löndum. Þar
mátti sjá Rússland, Georgíu, Armeníu, Tyrkland og Íran. Sjálft var Azerbaídsjan
vel staðsett á mörkum Austur-Evrópu og Vestur-Asíu.
Flugvélin
lenti á flugvellinum í höfuðborginni Bakú og flugstjórinn óskaði farþegunum
góðrar skemmtunar. Ég fylgdi fólksstraumnum út úr flugvélinni og inn í
flugstöðina. Það var heitt og ég kófsvitnaði í þykku lopapeysunni minni þegar
ég gekk út úr flugstöðinni. Úti var margt fólk, líf og fjör á götunum. Ég flaut
stjórnlaust áfram í mannhafinu eins og rekaviður úti á rúmsjó. En skyndilega
stóð ég augliti til auglitis við ókunnuga stelpu. Mér krossbrá. Hún var kannski
ókunnug, en hún leit nákvæmlega eins út og ég, með skolleitt hár og blá augu.
Ég starði á hana og hún starði á móti, við vorum báðar jafnhissa. Hún opnaði
munninn og sagði eitthvað sem ég ekki skildi. Ég hváði og mér fannst ég hljóma
eins og algjör asni. Stelpan endurtók sömu setninguna nokkrum sinnum,
andvarpaði svo mæðulega og fór að tala ensku. Þá fyrst skildi ég hana.
„Hello,
who are you?“
Ég
svaraði að ég héti Áslaug og væri frá Íslandi. Aftur starði hún undrandi á mig.
„Iceland?“
hún virtist hugsi „aren‘t they our old friends?“
„What?“
ég var orðin verulega ringluð. Ég hélt að Ísland og Azerbaídsjan væru álíka
fjarlæg hvort öðru eins og Norðurpóllinn og Suðurpóllinn. Old friends? Nei, það
stemmir ekki ...
„Haven‘t
you heard about Thor Heyerdahl?“ spurði stelpan.
Ég
hristi höfuðið enda hafði ég aldrei heyrt á hann minnst. „He was an explorer
from Norway who believed that people from Scandinavia were from Azerbaídsjan.“
Ég
velti þessu andartak fyrir mér. Hvaðan í veröldinni fékk þessi norski
landkönnuður þá flugu í höfuðið að Norðurlandabúar kæmu frá álíka fjarlægu
landi og Azerbaídsjan?
Stelpan
virtist skynja undrun mína því hún brosti og hélt áfram:
„In
Scandinavia‘s old stories there is a story about the time when one of the gods
led his people from Azer to Scandinavia to flee the Romans. Thor Heyerdahl
thought Azer could be Azerbaijan.“
Nú
var ég orðin verulega ringluð. Fyrst hitti ég tvífara minn og svo fór sú hin
sama að þvæla eitthvað um norrænar goðsagnir. Það væri kannski best að koma sér
héðan áður en hún færi að rugla um eitthvað annað og verra. Ég sneri mér við og
hljóp af stað í gegnum mannfjöldann. Að baki mér heyrði ég hana kalla en ég
skeytti ekkert um það og reyndi að láta mig hverfa inn í mannfjöldann.
Götusalar kölluðu og hrópuðu tilboð í allar áttir, túristar með heimskulegt
bros á vörum tóku hverja myndina á fætur annarri og bílar flautuðu úti á
götunum. Allt var þetta mjög ruglingslegt ...
Ég
rankaði við mér þar sem ég sat inni í kennslustofunni heima á Íslandi. Tíminn
var búinn og foreldrarnir voru að fara. Ég hafði greinilega týnst í mínum eigin
dagdraumum um Azerbaídsjan þar sem ég hitti tvífara minn og uppgötvaði að
landið átti nokkuð sameiginlegt með Íslandi. Þetta var frekar skondið en skyldi
kannski leynast eitthvert sannleikskorn í þessu?
Ummæli
Skrifa ummæli