Hvað er að frétta, ableismi?


Slauga og Snæja við Gróttu. Mynd  úr einkasafni.

Aaaatsssjúúúúú!

Afsakið hnerrann, Slaugan hérna er bara með bráðaofnæmi fyrir fötlunarfordómum. Rakst á grein þar sem höfundur taldi ákveðinn hóp fatlaðs fólks ekki vera fatlað því það hefði ekki sömu hagsmuna að gæta. Bíddu við, ha? Hefur ófatlað fólk þá allt sömu hagsmuni?

Hvað er annars að því að vera fatlaður einstaklingur? Ég bara spyr...

Almenn skilgreining á fötlun er andleg eða líkamleg skerðing sem veldur því að fólk mætir hindrunum í daglegu lífi því það passar ekki inn í staðla sem samfélagið setur. Þannig gerir samfélagið ekki ráð fyrir fjölbreytileikanum og dæminu er í raun snúið við, samfélagið er fatlaði aðilinn í sambandinu því það skortir víðsýni og  skilning. Þetta er allavega félagslega nálgunin á fyrirbærinu fötlun, sem ég hef áður greint frá í bloggfærslunni um klofna kerfið.

Ég er fötluð og er 21 ára viðskiptafræðinemi við Háskóla Íslands. Ég er fædd á Akureyri og er daufblind af því að ég er með erfðargalla. Ég er með kuðungsígræðslu, nota gleraugu og hjólastól, les með sérstöku lestæki, zooma allt í tölvunni, tala 2 tungumál reiprennandi og önnur 3 ágætlega. Ég tek 1600 mg af B2-vítamíni, 3 mg af Melatónín og svo Sertral á hverjum degi. Ég er ofvirk og algjör brussa og hef oftar en einu sinni endað á slysó með skurð á hausnum. Ég æfi CrossFit, finnst gaman að umgangast annað fólk, elska dýr, skáldskap og kvikmyndir...

Ég efast ekki um að flest, ef ekki allt, ofangreint standi einhversstaðar í sjúkraskýrslunni minni. En mér er alveg sama svo lengi sem eitthvað af þessu gæti komið læknum að gagni við að auka lífskjör mín. Það er nefnilega það að heilbrigðisþjónustan getur átt stóran þátt í að bæta lífsgæði fólks, ásamt félagsþjónustunni og öðru álíka. Ég hef einmitt alltaf sagt að fatlað fólk og aðrir eigi að nýta sér alla þá þjónustu sem það telur sig þurfa og ef hún er ekki til staðar þarf að gera kröfur um að fá hana. Ég lærði t.d. táknmál þegar ég var 5 ára, fékk kuðungsígræðslu 7 ára, hjólastól í kringum 10 ára, túlkaþjónustu í kringum 6 ára, sjúkraþjálfun í kringum 5 ára, stuðningsfjölskyldu 5 – 7 ára, liðveislu í kringum 8 ára, NPA-samning 17 ára, breyttan bíl 19 ára...

Og hér er ég í dag, 21 ára viðskiptafræðinemi á öðru ári, með stúdentspróf úr MH, hef æft sund, fimleika, fótbolta, box og lyftingar og er nú á fullu í Crossfit, hef gefið út eina bók og selt eitt listaverk, er í stjórnum a.m.k. 3 hagsmunafélaga, hef setið í 2 nefndum í háskólanum og svo framvegis.

Þrátt fyrir allt þetta held ég áfram að heyra fólk segja hluti eins og: ,,Fatlað fólk getur þetta ekki.“ ,,Ég er ekki fötluð og þarf ekki að vera fixuð.“ „Þú ert svo dugleg að vera með.“ ,,Máttu gera þetta?“ ,,Veit mamma þín af þessu?“ ,,Þú ert svo heppin miðað við mig.“

Mér finnst ég því oft þurfa að leggja meira á mig en annað fólk. Þetta neikvæða viðhorf fær mig til að finnast ég sífellt þurfa að sanna mig, jafnvel þó ég viti vel að það er bara kjaftæði.

Það sorglega er að þetta viðhorf ríkir ekki aðeins í samfélagi ófatlaðs fólks, heldur einnig meðal fatlaðs fólks. Sem fjölfötluð manneskja hef ég margsinnis orðið vitni að fötluðu fólki fordæma t.d. aðstandendur og heilbrigðisþjónustuna og kenna henni um ófarir sínar, lifa í afneitun við eigin fötlun og svo er ótrúlega algengt að fatlað fólk með einhverja ákveðna skerðingu sýni öðrum hóp fatlaðs fólks skilningsleysi og jafnvel fordóma.

Já, sumir eru kannski vitlausir.

Já, sumum var ekki kennt neitt í skóla.

Já, sumir eru þjakaðir af forræðishyggju.

Já, við eigum okkur sjálf.

Já, það er auðvelt að brjóta rétt fatlaðs fólks.

Já, það ætti að banna mismunun – alls staðar og alltaf.

EN það gefur okkur, hvort sem við erum fötluð eða ekki, engan rétt til þess að dæma aðra út frá útliti, stöðu eða mannkynssögunni yfirhöfuð. Til hvers að hanga í fortíðinni og misréttinu þegar við getum horft fram á veginn og lagt okkur fram um að gera heiminn að enn betri stað – í sameiningu? Ég las um daginn að það er erfitt að vinna manneskju sem er algjörlega fordómalaus, en samt er ég að pæla hvaðan þetta eðli mannsins til að flokka allt og alla kemur?

Þó að mannfólkið sé í raun ein dýrategund er það allskonar, enginn er fullkominn en það er víst bara mannlegt. Fólk hefur mismunandi skoðanir og lífssýn, mismunandi hörundslit, kynhneigð, heilsu o.fl. En fólk á allt sama réttinn á að lifa, uppfylla grunnþarfir sínar, tjá sig, velja og jafnvel að komast á milli staða. Hvert og eitt mannsbarn er einstakt, hvernig væri lífið annars ef allir væru alveg eins?

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Grunnskólaárin sem í móðu #GameOver

Umræðan um starfsgetumat: Ef þú getur gert 9 armbeygjur áttu að vinna 90% starf

Crossfit-æfingar fyrir sitjandi fólk