Túlkamálið: Fjárlög vs. Mannréttindi
Allir þátttakendur sumarbúðanna í Svíþjóð 2017. |
Við systur sátum við morgunverðarborðið og vorum að ræða
námið okkar. Hún þurfti að skrifa helling af ritgerðum í stjórnmálafræði á
meðan mér fannst ég alltaf í hlutaprófum í viðskiptafræði. Þá mundi ég að ég
þyrfti að klára eitt verkefni í lögfræði, en þrátt fyrir að viðskiptalögfræði
væri ein af uppáhalds greinum mínum var ég ekki mjög spennt fyrir henni þennan
morgun.
„Til
hvers að læra lögfræði?“ spurði ég sjálfa mig upphátt og vísaði til þess að ég
tapaði máli gegn ríkinu og Samskiptamiðstöð nýlega.
Systir
mín dæsti en benti mér á að lögfræði gæti nú alveg komið að einhverju gagni. Ég
samsinnti henni, en bætti þó við að ef til vill kæmi lögfræðin ekki að gagni
þegar kæmi að mannréttindum.
„76.
gr. stjórnarskrárinnar er dáin,“ minnti ég hana á hátíðlega „en eignarákvæðið
lifir enn góðu lífi. Eign er friðhelg... En ég ætla mér samt að verða
heiðarlegur viðskiptafræðingur.“
„Já, og
fara strax á hausinn.“ kom kaldhæðið svarið um hæl.
En í alvöru, eftir reynslu mína af dómskerfinu er ég orðin
efins um íslenska réttarkerfið. Mál mitt var frekar flókið og erfitt, en ég
taldi allan tímann að ég væri að gera hið rétta í stöðunni, að kæra. Þetta
byrjaði allt í ágúst 2016 þegar ég fékk boð í norrænar sumarbúðir fyrir
daufblind ungmenni.
Það var
venjulegur ágústdagur og ég var bara heima að chilla. Ég kíkti örlítið á
Facebook og þá blasti við mér tilkynning um að mér hefði verið bætt inn á
lokaðan hóp af kunningja mínum í Svíþjóð. Hópurinn bar heitið Nordic Youth Camp
for Deafblind in Sweden 2017, og fyrsti statusinn þar inni var tilkynning frá
skipuleggjendum sumarbúða fyrir daufblind ungmenni, þar sem tilkynnt var að
sumarbúðirnar yrðu haldnar í Svíþjóð 17. – 24. júlí 2017. Ég var himinlifandi.
enda sá ég þarna tækifæri til að hitta jafningja mína, fólk á svipuðum aldri og
ég með svipaða reynslu. Af eigin raun vissi ég hve erfitt það getur reynst að
fá túlka með sér erlendis, sem ég þurfti nauðsynlega. Ekki það að ég skilji
ekki ensku eða sænsku, heldur er ég bæði heyrnarlaus og lögblind og þarf aðstoð
táknmálstúlks í samskiptum við annað fólk, hvort sem það er hérlendis eða
erlendis. Daufblindan verður því miður ekki eftir á Leifsstöð þegar ég fer út,
það er bara staðreynd. En sem sagt, ég sendi strax inn pöntun til
Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og spurði hvort ég gæti
fengið túlka. Það leið og beið, en ekkert nákvæmt svar kom fyrr en í desember
2016. Þegar svarið loks kom, var það heldur loðið. Þar kom fram að kostnaðurinn
við svona túlkun væri mjög hár og að hann stemmi ekki við fjárlög. En mér var
boðið að kæra svarið, já, bara sísona.
Eftir
að hafa óskað eftir formlegri neitun barst loksins neitunarbréf í mars 2017.
Þar voru þau rök sett fram að kostnaðurinn væri of hár og myndi vega á jafnræði
milli notenda. Einnig var tekið fram að Mennta- og menningamálaráðuneytið hefði
skipað Samskiptamiðstöð að veita bara túlkaþjónustu hérlendis. Ég hristi
hausinn yfir bréfinu og hugsaði með mér: hvernig lækka ég kostnaðinn þannig að
það væri jafnt og að fá túlk í sumarbúðir á Hofsósi?
Ég
hafði samband við forsvarsmenn sumarbúðanna og upplýsti þau um málið. Sú sem
svaraði lýsti yfir undrun á þessu ástandi, enda sammála mér að um sjálfsögð
mannréttindi væri að ræða. Hún lofaði að athuga hvort forsvarsmennirnir gætu
gert eitthvað til að styrkja mig, enda vildu þau endilega að ég gæti verið með sem fulltrúi Íslands. Stuttu síðar fékk
ég þau svör að sumarbúðirnar gætu greitt ferðakostnað, gistingu og uppihald
túlkanna, en því miður ekki launin. Ég þakkaði þeim kærlega fyrir og setti mig aftur
í samband við Samskiptamiðstöð í þeirri von að þessar breyttu forsendur gætu
breytt ákvörðun stofnunarinnar um að veita mér ekki endurgjaldslausa
túlkaþjónustu erlendis. Aftur kom neikvætt svar og í þetta skipti sá ég að það
væru engar fleiri samningaleiðir í boði, ég þurfti að kæra. Þannig að ég fól
lögmanninum mínum það verkefni að kæra þessa ákvörðun og fara fram á miskabætur
og lét hann fá öll þau gögn sem ég hafði undir höndum varðandi málið.
Það er
nú þannig að hér á landi ríkir einokun í félagslegri túlkaþjónustu.
Samskiptamiðstöð er vörslumaður svokallaðs félagslegs túlkasjóðs, en engar reglur
gilda um úthlutun úr sjóðnum fyrir utan jafnræðisregluna. En það að taka ekki
afstöðu til þess að sumir notendur þjónustunnar eru ekki aðeins heyrnarlausir,
heldur líka blindir, er í sjálfu sér mismunun á grundvelli fötlunar. Einnig
stendur í 76. gr. stjórnarskrárinnar að ríkið skuli tryggja rétt til
aðstoðar sökum elli, sjúkleika, örorku eða annars. Þess má geta að systir mín
fór í sambærilegt mál við ríkið og Samskiptamiðstöð árið 2015, eftir að hafa þurft að greiða
túlkaþjónustu úr eigin vasa. Hún vann málið og ríkinu var gert að setja reglur
um úthlutun úr félagslega sjóðnum, sem það hefur ekki enn gert.
Ég
hefði líklega ekki verið eins ákveðin í því að kæra ef þetta hefði t.d. snúist
um ráðstefnu um Downs-heilkennið eða eitthvað svoleiðis sem ég veit lítið um.
En staðreyndin er sú að það eru örfáir með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu sem
eru á svipuðum aldri og ég hérlendis og þessar sumarbúðir voru því dýrmætt
tækifæri fyrir mig til að hitta jafningja mína, miðla eigin reynslu og læra af
þeim og jafnvel finna fyrirmyndir. Það er nú grundvöllur lýðræðissamfélags að
geta tekið þátt í hagsmunabaráttu, og ég hef hagsmuna að gæta sem daufblind ung
kona.
Þrátt
fyrir öll þessi rök ákvað Héraðsdómur Reykjavíkur að sýkna ríkið og
Samskiptamiðstöð á þeim forsendum að kostnaðurinn væri of hár og myndi vega
gegn jafnræði. Ég var sem sagt að biðja um of mikið. Ég var freka konan í
kerfinu.
Dómurinn
féll daginn áður en ég átti að fara til Svíþjóðar og ég ákvað að nú væri of
seint að hætta við. Ég tók lán, faldi lögmanninum að áfrýja dómnum og var svo
flogin út. Ég sé ekki eftir neinu af þessu, enda átti ég afar dýrmæta viku úti
og sneri aftur glöð og kát og reiðubúin í slaginn.
Svo
liðu dagarnir og málið komst hægt og rólega á borð Hæstaréttar. Ég vonaði að
það yrði tekið fyrir jól, en svo fékk ég að vita að skýrslutakan yrði 3.
nóvember, sem var mun fyrr en ég þorði að vona. Ég fékk flýtimeðferð og
gjafsókn, og dómurinn var fjölskipaður. Ég var ánægð með þetta, og vonaði að
réttlætið myndi sigra að lokum. En kannski trúði ég of mikið á réttlætð, því
Þrasímakkos sagði eitt sinn að réttlætið er það sem kemur hinum sterka vel
(Platon, Ríkið, Bók I).
Ég
mætti í dómssal Hæstaréttar snemma morguns 3. nóvember. Lögmennirnir skiluðu
skýrslum og ég var mjög sátt með minn mann, sem var bæði ákveðinn og sannfærandi í máli. En á sama tíma saknaði
ég systur minnar, sem gat ekki verið v iðstödd þar sem hún fékk ekki túlka.
Stuðningur hennar var afar mikilvægur í ljósi þess að hún hafði gengið í gegnum
svipaða reynslu og ég.
Ég var
vongóð, enda studdist mál mitt af stjórnarskránni, lögum, fordæmi,
réttarreglum, sáttmálum og eðli málisins á meðan rök hinna stefndu byggðust
aðallega á jafnræðisreglunni og fjárlögum. Ég var víst of bjartsýn.
Viku
síðar, þegar ég kom heim úr skólanum, hringdi lögmaðurinn. Hann tilkynnti að
Hæstiréttur hefði staðfest dóm Héraðsdóms. Ég var í fyrstu svo undrandi að ég
hélt hann væri að tala um eitthvað allt annað, en svo rann upp fyrir mér ljós.
Ég hafði tapað, fjárlögin trompuðu stjórnarskrárvarin mannréttindi. Lögmaðurinn
tilkynnti með trega að 76. gr. stjórnarskrárinnar væri dáin.
Það
fyrsta sem ég gerði var að hringja í neyðarlínu Samskiptamiðstöðvar og afpanta
túlk sem ég átti á æfingu þetta kvöld. Næsti hálftíminn fór í að hafa samband við
vini og ættingja og heyra betur í lögmanninum. Sá var ekkert sérlega kátur með
dóminn og sagði mér að hann vildi ekki gefast upp. ef ég væri til í slaginn þá
væri hann líka til. Svo eyddi ég kvöldinu í að glápa á Pretty Little Liars og
tárast yfir dómnum, ég man ekki einu sinni hvað gerðist í þáttunum. Líklega
eitthvað mjög ómerkilegt.
Daginn
eftir vaknaði ég og dreif mig á fund. Það var kominn snjór og ég byrjaði daginn
á því að hnerra með opinn hitabrúsa í hendinni svo heitt teið gusaðist út um
allt. Bara mjög dæmigerður föstudagsmorgun, ég gat ekki annað en hlegið að
sjálfri mér. Sjokkið var að dvína, reiðin var þó enn til staðar. Dagurinn fór í
fundi og að ræða við fjölmiðla, en þegar kvöldaði var ég orðin ákveðin á ný. Ég
ætlaði ekki að gefast upp og sendi lögmanninum tölvupóst þar sem ég lét hann
vita að ég væri til í slaginn. Ég ætla í sömu sumarbúðir í Noregi 2019 og mig vantar túlka. Í raun þarf ég að
fara, því Ísland á að halda sumarbúðir fyrir daufblind ungmenni 2021 og ég hef
nú þegar tekið að mér að halda utan um undirbúninginn.
Að gefast upp er ekki
til í minni orðabók.
Ummæli
Skrifa ummæli