Umræðan um starfsgetumat: Ef þú getur gert 9 armbeygjur áttu að vinna 90% starf


Hvað er að frétta? Já, alveg rétt, Alþingi var að hefjast á ný eftir sumarið og svo datt ríkisstjórnin bara í sundur. Slaugan klórar sér nú í hausnum yfir öllu sem er að gerast í íslenskri pólitík. Það er nefnilega það að pólitík hefur mun meiri áhrif á okkur öll en margir halda. Það er Alþingi sem sker út um hvort fólk fái mannsæmandi heilbrigðisþjónustu, geti sótt sér menntun og geti lifað sjálfstæðu lífi. Alþingi setur lög sem hafa áhrif á líf okkar og það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að framkvæma þau.

Slaugu langar nú að ræða um áform um svokallað starfsgetumat.

Starfsgetumat er m.a. skilgreint sem heildrænt mat á líkamlegri, andlegri og félagslegri getu einstaklingsins í því skyni að veita honum einstaklingsmiðaða endurhæfingu og draga úr ,,vinnuletjandi“ þáttum, hvað svo sem það nú þýðir. Með matinu er geta viðkomandi til að afla eigin tekna metin og miðað að því að virkja hann enn frekar.

En hvað er starfsgeta?

Eftir því sem Slaugan kemst næst hefur einstaklingur starfsgetu þegar hann/hún hefur  líkamlega, andlega og félagslega heilsu til að vinna, að því gefnu að starfsumhverfið sé ásættanlegt eða hægt er að aðlaga einstaklinginn að því.

Stjórnmálamenn, einkum velferðarráðherrar síðustu ára, hafa rætt um að taka upp starfsgetumat stað örorkumats. Starfsgeta öryrkja yrði þá metin og þeir fengju örorku í samræmi við matið. t.d. ef öryrki hefur 15% starfsgetu fengi viðkomandi 85% örorkubætur. Viðkomandi yrði þá að vinna 15% starf til að bæta upp tapið.

Hugmyndin að baki þessu er augljóslega að hvetja til atvinnuþátttöku öryrkja. Hagsmunaaðilar hafa hins vegar bent á ýmsa galla í þessu. Slaugan ætlar nú að renna stuttlega yfir þau rök sem beitt eru gegn starfsgetumatinu, en þess má geta að bæði Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp eru frekar andv íg áformunum, og þetta eru tvö stærstu hagsmunasamtök fatlaðs fólks á Íslandi:

Í fyrsta lagi lítur út fyrir að um fátæktargildru  sé að ræða. Segjum svo að öryrki fengi 75% örorkubætur og væri sv o í vinnu þar sem hann fengi 200.000 í mánaðarlaun. Tekjur hans þennan mánuðinn að frádregnum skatti yrðu þá aðeins rúmlega 172.000 sem er tæpum 17.000 krónum minna en fullar örorkubætur. En hvaða vinnuveitandi myndi vilja fólk í 25% stöðu eða jafnvel minna? Slaugan er með NPA-samning og því sjálf vinnuveitandi. Hún myndi allavega ekki vilja slíkt fólk í vinnu, enda gæti það raskað vaktaplaninu, skert sveigjanleika þjónustunarinnar og svo má aðstoðarfólkið ekki vinna minna en 5% skv. kjarasamningi NPA. Hér eiga því atvinnuveitendur augljóslega einnig hagsmuna að gæta.

Í öðru lagi eru stjórnvöld hér með að gefa í skyn að öryrkjar séu latir, sem er langt frá því að vera rétt. Slauga er sjálf öryrki, hana langar að vinna en fær bara ekki vinnu. Það eru í raun engin lög sem banna vinnuveitendum að mismuna fötluðu fólki þegar það sækir um vinnu. Þess má geta að í Bandaríkjunum eru sérstök lög (ADA-lögin) sem banna mismunun á grundvelli fötlunar og skylda vinnuveitendur auk þess tl að gera viðeigandi ráðstafanir til að fatlað fólk geti unnið. Reyndar hefur Þorsteinn Viglundsson jafnréttis- og velferðarráðherra nú lagt fram frumvarp sem bannar mismunun á grundvelli fötlunar og það þykir Slaugu vera skref í rétta átt.
Slaugan hefur lent í því að sækja um starf sem hún taldi sig hæfa í en svo fékk einhver annar starfið sem hún taldi ekki hafa sömu reynslu og hæfni . Svo eru engin lög sem tryggja að heyrnarlaust eða daufblint fólk fái táknmálstúlkun á vinnumarkaði, sem er ákveðin hindrun fyrir fólk eins og Slaugu. Það væri því nær að þingmenn reyndu að hvetja fatlað fólk til að vinna með því að tryggja réttindi þeirra með lögum og að það fái þá aðstoð og þjónustu sem það þarf til að geta unnið. Í huga Slaugu er það allavega  mun rökréttari nálgun heldur en að skerða örorkubætur og ,,þvinga“ fatlað fólk til að vinna.

Í þriðja lagi stemma þessi áform ekki við Samning Sameinuð‘u þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur undirritað og fullgilt og sem vísað er til í lögum um málefni fatlaðs fólks. Í 17. gr. samningsins stendur:

,,Sérhver fatlaður einstaklingur á rétt á því, til jafns við aðra, að líkamleg og andleg friðhelgi hans sé virt.“

Í 19. gr.stendur að aðildarríkin viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og rétt þess til að eiga valkosti til jafns við aðra. Þau skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi njóta þessa réttar til fulls og stuðla að fullri þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar.

Í 1. mgr. 26. gr. stendur orðrétt:

,,Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir, m.a. annars með tilstyrk jafningjaaðstoðar, til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast sem mest sjálfstæði, fulla líkamlega, andlega og félagslega getu, ásamt starfsgetu, og að vera þátttakendur í lífinu á öllum sviðum án aðgreiningar, ásamt því að viðhalda þessum gæðum. Til þess að svo megi verða skulu aðildarríkin skipuleggja, efla og útvíkka þjónustu og áætlanagerð á sviði alhliða hæfingar og endurhæfingar, einkum að því er varðar heilbrigði, atvinnu, menntun og félagsþjónustu, með þeim hætti að fyrrnefnd þjónusta og áætlanir:a. hefjist eins snemma og frekast er unnt og séu byggðar á þverfaglegu mati á þörfum og styrk hvers einstaklings um sig,
b) stuðli að þátttöku í samfélaginu og þjóðfélaginu á öllum sviðum án aðgreiningar, séu valfrjálsar og standi fötluðu fólki til boða sem næst samfélögum þess, einnig til sveita.“ 

Að lokum stendur í 27. gr. að aðildarríki viðurkenni rétt fatlaðs fólks til að vinna og til að velja sjálft hvað það vinnur við. Ríkin skulu banna mismunun á grundvelli fötlunar, tryggja atvinnuréttindi fatlaðs fólks, gera ráðstafanir til að það geti unnið og hvetja það áfram.

Hægt er að lesa samninginn í heild sinni HÉR.


Þegar Slaugan summar allt saman spyr hún hvar friðhelgi einstaklingsins sé eiginlega, valfrelsi og atv innufrelsi. Ætla stjórnvöld að senda alla öryrkja í endurhæfingu nauðuga viljuga, skerða lífskjör þeirra sem finna ekki hlutastarf strax  og hreinlega þvinga öryrkja til að  vinna? Eru þetta þær ,,árangursríku“ ráðstafanir sem velferðarríkið Ísland ætlar að ráðast í?

Slauga heldur að þessi flýtileið sé ekki að fara að virka jákvætt á okkur öll.







Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Grunnskólaárin sem í móðu #GameOver

Crossfit-æfingar fyrir sitjandi fólk