Áskorun á Alþingi að lögfesta NPA
Enn eina ferðina á að rjúfa þing snemma. Í þetta skipti er
það af því að fólkið í ríkisstjórninni gat ekki
treyst hvort öðru. Eins og flestir vita slitnaði upp úr ríkisstjórninni
eftir að upplýsingar um kynferðisbrotamenn sem fengu uppreist æru voru birtar.
Þingið verður því rofið í lok október og þangað til þarf það að ákveða hvaða
mál skuli rædd á þessum stutta tíma.
Ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta er sú að ég hef þungar
áhyggjur af framvindu mála. Ég er 21 árs fötluð kona sem reiði mig á aðstoð
annarra í daglegu lífi. Ég er í fullu háskólanámi, stunda íþróttir og
félagsstarf. Til að geta gert alla þessa sjálfsögðu hluti þarf ég aðstoðarfólk
og er því með NPA-samning (Notendastýrð persónuleg aðstoð). Staðreyndin er þó
sú að NPA er enn bara tilraunaverkefni hérlendis og það rennur út núna um
áramótin.
Fyrir seinustu kosningar lofuðu flestir flokkarnir að
lögfesta NPA og var stefnt að því að láta af því verða í lok árs 2017. En nú er
kominn september, ríkisstjórnin er fallin og bara mánuður til stefnu. Ef þingið
lögfestir ekki NPA núna eða aðhefst neitt, missi ég aðstoðarfólkið mitt eftir tæpa
þrjá mánuði og aðstoðarfólkið mitt missir vinnuna. Ég hef ekki hugmynd hvernig
lífið verður eftir áramót, hvort ég fái aðstoð eða ekki og það sem skiptir
mestu máli; hvort ég geti haldið áfram að lifa sjálfstæðu lífi. Hvernig á ég að
klæða mig, borða, komast í skólann, þvo þvott, æfa CrossFit, skrifa
fundargerðir, kaupa jólagjafir, elda, mála mig, heimsækja vini, hugsa um bílinn
minn...
Er þetta það sem við viljum? Að ýta fötluðu fólki út í horn
og svipta því tækifæri til að lifa sjálfstæðu lífi? Að láta aðstoðarfólk þess
missa vinnuna? Að koma í veg fyrir að samfélagið njótu vinnuframlags og nærveru
fatlaðs fólks? Að byrja aftur á byrjunarreit?
Var Ísland ekki einmitt að fullgilda Samning Sameinuðu
þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks? Og hvað með 76. gr. stjórnarskrárinnar sem
kveður á um að tryggja skuli rétt til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli
eða annars?
Er þingmönnum alveg sama?
Slauga skorar á Alþingi að lögfesta NPA áður en það verður
um seinan.
Ummæli
Skrifa ummæli