Klofna kerfið: Mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og samstarfs milli aðila
Ég var fatlað barn, þó að það fór ekki að bera á því fyrr en ég var rúmlega fimm ára. Íslenska er móðurmál mitt, en ég lærði íslenskt táknmál þegar heyrnin fór að versna. Ég fékk kuðungsígræðslu báðum megin þegar ég var sjö ára, og mætti reglulega í talkennslu þar til ég var tólf ára. Ég er afar þakklát fyrir allt þetta, enda grunar mig að lífið hefði orðið allt annað ef ég hefði verið svipt einhverju af ofangreindu, t.d. táknmálskennslu eða kuðungsígræðslu.
Það að grípa
inn í eins fljótt og unnt er þegar barn missir heyrn kallast snemmtæk íhlutun.
Ég tel afar mikilvægt að kerfið geri ráð fyrir þessum börnum og leiti allra
leiða til að auka lífsgæði þeirra og möguleikana á að ná eðlilegum þroska. Það
er nefnilega mjög slæmt ef heyrnarlaust eða daufblint barn festist í kerfinu. Á
meðan heyrandi börn læra að tala með því að hlusta og herma eftir hljóðum ná
heyrnarlaus börn málþroska í gegnum táknmál. Málið fer þó að flækjast þegar
kemur að börnum sem bæði sjá og heyra illa og því er afar mikilvægt að fagfólk
grípi inn í sem fyrst. Þetta þarf að gerast áður en barnið verður átján mánaða,
annars gæti skerðingin haft varanleg áhrif á þroska þess og lífsgæði til
frambúðar. Tilgangur þessarar greinar er þó ekki að gera grein fyriir málþroska
barna enda er ég enginn talmeinafræðingur þó ég hafi vissulega eytt heilu sumri
sem sumarliði við að þýða greinar um máltöku daufblindra barna. Hins vegar vil
ég gera grein fyrir íslenska kerfinu eins og það er í dag og hvers vegna
tvítyngi og samhæfing er afar mikilvæg.
Hér á Íslandi má helst nefna tvær
stofnanir sem sinna málefnum heyrnarlausra barna þegar kemur að málþroska.
Annars vegar er það Heyrnar- og talmeinamiðstöð Íslands (HTÍ) og hins vegar
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH). Það má segja að starfsemi
HTÍ sé byggð á læknisfræðilega módelinu (skv. fötlunarfræðunum) en SHH sé hins vegar byggt á félagslega
módelinu,. HTÍ annast læknisfræðilegar
rannsóknir, heyrnarmælingar, talmeinakennslu auk þess að selja allskonar
heyrnarhjálpartæki og veita faglega ráðgjöf varðandi heyrn. SHH rannsakar og
kennir íslenskt táknmál (ÍTM), veitir ráðgjöf og samskiptagreiningu auk þess
sem stofnunin sér um táknmálstúlkaþjónustu. Þetta eru því afar ólíkar stofnanir
sem sinna í raun sameiginlegum málefnum og þess vegna tel ég afar mikilvægt að
gott samstarf og virðing ríki þar á milli. Raunin er þó því miður önnur, það má
eiginlega líkja þessum stofnunum við hundinn og köttinn í kerfinu. Það er
ekkert leyndarmál í samfélagi heyrnarlausra að HTÍ og SHH hafa löngum verið
afar ósammála þegar kemur að málefnum heyrnarlausra, stundum svo ósammála að
það jaðrar við illvígum deilum. Þetta er e.t.v. bara eðlilegt, læknisfræðilega módelið
hefur gjarna snúist um það að lækna fólk og heyrnarleysi er t.d. álitinn galli
og sumir vísindamenn trúa því jafnvel að þennan galla sé bara hægt að laga með
því að gera skurðaðgerð. Á meðan er félagslega módelið afar frábrugðið. Fötlun
er eiginleiki, merki um fjölbreytileikann í heiminum, og það er í raun
samfélagið sem ber ábyrgð á þeim hindrunum sem þessi eiginleiki mætir. Hindranirnar
má t.d. leysa með aukinni fræðslu og þjónustu, það er ekki nóg að senda fatlaða
einstaklinginn í skurðaðgerð. Þetta eru því í raun tvær hliðar á sama
skildingnum og þess vegna finnst mér afar mikilvægt að gott samstarf sé þar á
milli.
Ég ætla að nýta mér tól úr hagfræði
til að rökstyðja betur meiningu mína. Í hagfræði má t.d. finna tekjuband (e.
budget constraint) og jafnmagnslínu. Þetta eru einföld líkön sem hafa það
sameiginlegt að vilja útskýra hegðun fólks eða fyrirtækja eftir breytum þeirra.
Tvö fyrirbæri eru á einföldu grafi, þjónusta frá fyrirtæki A er á x-ás og þjónusta
frá B á y-ás og einstaklingurinn stendur frammi fyrir vali milli þessa tveggja
fyrirtækja. Ef einstaklingurinn vill fá meiri þjónustu frá fyritæki B þarf hann
að gefa upp í staðinn þjónustu frá A, e.t.v vegna þess að þjónustan kostar og
hann hefur ekki endalaust í ráðstöfunartekjur - milli ásanna er því ein bogin
lína (eins og banani í laginu) sem sýnir samband A og B. Nú ætla ég að kalla
línuna „Hamingjulínuna“ og setja ,,Hjálpartæki“ í staðinn fyrir A og ,,Táknmál“
í staðinn fyrir B. Ásarnir tákna þá alla þá þjónustu sem þessi tvö fyrirbæri
veita á skalanum 0 – 10. Ef einstaklingur notar bara hjálpartæki notar hann
ekkert táknmál og öfugt. Samkvæmt kenningunni um tekjuband er fólk
sjaldan hamingjusamt ef það fær meira en nóg af einu en ekkert af öðru. Ef fólk
þyrfti t.d. að velja á milli þess að drekka eða borða, hvað myndi það þá frekar
vilja?
Svarið liggur á miðri línunni. Hamingjan er víst í hámarki þar sem fólk fær jafn mikið af þjónustu frá bæði fyrirtæki A og fyrirtæki B. En af því að það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að borða og drekka mikið, þá þarf fólk að finna jafnvægið með því að gefa frá sér þjónustu frá fyrirtæki A eða B og á móti fá meiri þjónustu frá hinum aðilanum.
Snúum
okkur nú aftur að hjálpartækjum og táknmáli.
Samkvæmt fyrri kenningu væri best að setja punkt við hnitð 5,5.
Hagfræðilega séð er hamingjan nú í hámarki.
Þar sem
lítil börn eru enn að þroskast og gera sér ekki grein fyrir því sem þau vilja
og þurfa, finnst mér því að fagfólk ætti að taka tillit til þess og gefa því
tækifæri til að njóta vafans. Látum heyrnarlausa barnið fá heyrnartæki, veitum
því talkennslu og táknmálskennslu og hugsum vel um málumhverfi þess. Við ættum
sem sagt að byrja á því að setja það á miðja línuna á Hamingjulínunni. Svo
þegar barnið verður eldra getur það sjálft ákveðið hvort það vilji frekar
hjálpartæki eða ekki og þannig fært sig til á línunni eftir eigin getu. Því þetta
snýst um möguleika barnsins í lífinu en ekki einhverja hugmyndafræðilega
samkeppni milli fagfólks.
Ummæli
Skrifa ummæli