Föstudagsslamm: Sullað með regnbogalitina


Nei  hvað  er að frétta? Er Gleðigangan á morgun?! Hvað á Slaugan nú að gera???

Það er föstudagur og Slaugan að koma sér í helgargírinn. Þegar það er fössari er víst ekkert annað hægt að gera en að lífga aðeins upp á bloggið með einhverju skemmtilegu slammi. En hvað er skemmtilegt slamm?

Hmmm...

Ég veit! Það er REGNBOGAKOKTEILGERÐ!!!

Það er nefnilega svo ótrúlega margt sem er hægt að bralla í tilraunaeldhúsinu: eldamennska, bakstur, drykkjargerð...
Slauga hefur lengi vel verið frekar hrifin af kokteilum, en best finnst henni þó að búa þá sjálf til. Það er fáránlega skemmtilegt að sulla með allskonar áfengi, safa og gos, pæla í glösunum og setja saman skreytingar. Það er nefnilega þrennt sem gerir drykk að góðum kokteil:
  • Hráefni
  • Glas
  • Skreyting

 Á meðan Margaríta er gerð úr Tequila og  venjulega sett í frekar grunnt glas inniheldur klassískur Tom Collins kokteill gin og er borinn fram í háu glasi og Daiquiri er gjarna úr rommi og skreyttur með ávöxtum. En í rauninni snýst kokteilgerð um að láta ímyndunaraflið flakka og finna út úr því hvað passar saman og gerir góðan og flottan kokteil, kokteilar eru semsagt listaverk sem má drekka.

Í tilefni af Gleðigöngunni 2017 ákvað Slaugan því að henda í einn litríkan gleðikokteil. Það tók nokkrar tilraunir áður en Slaugan rambaði á þann eina rétta. Daufblinda manneskjan sörfaði á barnetinu, glápti á Youtube, skeggræddi við starfsfólk verslana og prófaði sig áfram til að reyna að finna út úr öllu þessu kokteildóti. Slauga var því orðin nett full en kát þegar henni tókst loksins að töfra fram stórglæsilega Sangríu í öllum regnbogans litum.

Hamingjusöm Regnbogasangría

(Uppskrift fyrir ca. 2 drykki)


Innihald
150 ml hvítvín (helst sætt eða miðlungs, ég notaði Mia)
½ msk. Hlynsýróp (má líka vera hunang)
12 ml Brandy (ég notaði Camus VS Elegance)
60 ml sódavatn (má nota Sprite ef þú vilt meiri sætu)
Jarðarber
Kiwi
Sítróna
Fjólublá vínber
Bláber
Appelsína

Aðferð
Settu hvítvín, Brandy og  hlynsýróp í könnu og blandaðu saman. Helltu svo 60 ml af sódavatni út í blönduna og hrærðu, gættu þess að hræra varlega svo að gosið fari ekki.
Skerðu alla ávextina nema bláberin í litla bita.
Raðaðu ávöxtunum í fínt kokteilglas, lag fyrir lag. Fyrst vínber, svo bláber, svo kiwi, sítróna, appelsína og loks jarðarber. Sjáðu hvað regnboginn er flottur!
Helltu vökvanum varlega út í kokteilglasið og leyfðu honum að streyma í gegnum alla ávextina.
Skál!



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Guest Blogger: Embracing Adventure

Baráttan við bakið

Draumurinn um háskólagráðu