Þegar skólinn hefst á ný


Slauga á leið í klifur í Svíþjóð, sumarið 2017. Mynd úr einkasafni.

Slaugan er svo glöð!

Hún er glöð af því að sumarið var geggjað. Hún er glöð af því að jólin nálgast. Og hún er svo glöð af því að skólinn er byrjaður.
Á meðan sumir myndu eflaust dæsa og hugsa til sumarsins með mikilli eftirsjá, er Slaugan syngjandi sæl á fyrsta skóladeginum. Ekki af því að sumarið var svo leiðinlegt, ó nei, heldur af því að skólinn er málið! Ný stundatafla, nýjar skólabækur, nýir kennarar, lögfræði, þjóðhagfræði, fjármál og utanríkisverslun. Og svo auðvitað ,,vekjaraklukkan“ að pikka í mann eldsnemma á morgnana. Þetta kallast sko alvöru rútína. Svo má ekki gleyma öllu skóladjamminu sem er alls ekki leiðinlegt!

Slaugan ætlar sér sko að njóta þess að vera annars árs nemi í viðskiptafræði og vonast til að læra eitthvað í hausinn á sér. Hún heldur nefnilega að menntun skipti máli og sé í raun mannréttindi.  Hún veit líka að ekki allir í heiminum hafa tækifæri til að mennta sig, þrátt fyrir að um sjálfsögð mannréttindi sé að ræða. Svo lengi sem Slaugan getur sótt sér menntun er hún því þakklát að geta það. Jafnvel þótt í náminu felist m.a. að teikna hagfræðilíkön og gröf, vinna í Excel og að mæta í margra klukkustunda lokapróf. Sumir hefðu kannski haldið að slikt væri of erfitt fyrir einhvern sem hvorki heyrir né sér, en svo er í rauninni ekki. Slaugan mætir bara í lokaprófið í hagfræði með bros á vör og fullt af litum til að teikna flott líkön og útskýra þau í löngu og ítarlegu máli, eina sem hún hefur áhyggjur af er að hún taki óvart of lítið af prófsnarli með sér, sem er algjör skandall.
Svo má ekki gleyna  hvað þessi hérna er mikið Excel-nörd. Þegar Slaugan segir nörd, þá meinar hún NÖRD, því hún notar Excel ekki bara sem dagbók og til að halda heimilisbókhald, heldur líka til að glósa upp úr námsefninu. 

Slaugan sér þó fram á annasaman vetur þar sem hún mun einnig stunda íþróttir og félagsstarf samhliða náminu. Þess vegna vill hún biðja ykkur, lesendur góðir, innilegrar afsökunar ef ykkur finnst of langt á milli bloggfærslna í vetur. Ef þið hafið ekki heyrt í Slaugunni í langan tíma er það líklega af því að hún sé á bólakafi, en þá er bara um að gera að kvarta á Facebook!

Peace out!



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Guest Blogger: Embracing Adventure

Baráttan við bakið

Draumurinn um háskólagráðu