Fatlaða búningapartýið: Fatlað fólk í sjónvarpi
Hefur þú séð La Famille Bélier? Hún er mögnuð. Hefur þú
heyrt um Me Before You? Hún er ótrúleg. Hefur þú tekið eftir Artie Abrams í
Glee-þáttunum? Hann er cool.
Ég er mikið kvikmyndanörd enda á ég yfir 100 DVD-myndir og
er alltaf eitthvað að djöflast á Netflix. Þegar ég horfi á mynd eða þátt vil ég
fyrst vita allt um hana, hvað hún fær háa einkunn á IMDB, hverjir leika í
henni, hver samdi títlalagið, um hvað hún fjallar, hvar hún gerist o.s.frv. Svo
á meðan ég horfi geri ég athugasemdir við frammistöðu leikaranna, tónlistina,
sögusviðið og söguþráðinn. Ég lærði nefnilega leiklist í mörg ár í grunnskóla
og tók 3 leiklistaráfanga í framhaldsskóla og tel mig því vera ágæta í að taka
eftir smáatriðum og hef oft sterkar skoðanir á hvernig leikararnir og
leikstjórarnir standa sig. En ég hef líka ýmislegt að segja um hvernig leikarar
vinna og hvernig þeir eru valdir. Ég hef t.d. oft séð viðtöl við fræga
Hollywood-leikara þar sem þeir tala um að þurfa að þyngja sig fyrir þetta hlutverk,
raka sig fyrir hitt og þess háttar. Mér finnst þessi lífsstíll alls ekki
heilbrigður, það er til allskonar fólk í heiminum, fólk sem langar til að fá að
leika í kvikmynd eða þáttum og býr yfir raunverulegum hæfileikum til þess en
fær svo bara ekki tækifæri. Fatlað fólk er ágætt dæmi um slíkt.
Það sem La Famille Bélier, Me
Before You og Glee eiga sameiginlegt er að vera frægar myndir/þættir þar sem
fatlaðar persónur koma fram. En allar eiga það einnig sameiginlegt að
leikararnir sem fara með þessi hlutverk eru ófatlaðir, sem gefur til kynna að fatlanir
eru álitnar vera einskonar búningur í augum framleiðenda. Þetta er í raun bara eins
og að mála hvíta leikara svarta í stað þess að ráða alvöru svarta leikara, eins
og var gert í gamla daga.
Nú
hugsar þú ef til vill með þér: ,,Hversskonar vælukjói er þessi bloggari?“ Já,
þetta hljómar kannski vælulega, en ég er bara að segja mína skoðun og koma með
einfaldar staðreyndir þeim til skýringar. Ég veit að það er fullt af fötluðu
fólki í heiminum sem hefði gjarna viljað leika í ofangreindum myndum. Skv.
Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO eru rúmlega 10 – 15% íbúa jarðar fatlaðir,
s.s. um 600 – 800 milljónir. Það ætti því ekki að vera neitt vandamál að finna
hæfileikaríka leikara í þessum stóra hóp, en nei, framleiðendunum finnst þeir
greinilega ekki nógu góðir. Huh.
Allar
myndirnar hér að ofan hafa sætt harðri gagnrýni frá fötluðu fólki. Má þar nefna
frönsku kvikmyndina La Famille Bélier en myndin er um heyrandi einstakling sem
býr hjá heyrnarlausri fjölskyldu sinni og uppgötvar eigin sönghæfileika. Þessi
mynd hefur vakið mikla reiði meðal döff (heyrnarlaust fólk sem tala táknmál og
tilheyrir samfélagi heyrnarlausra) í Frakklandi og víðar. Ástæðurnar eru þær að
enginn leikaranna í myndinni eru döff, enginn döff vann við framleiðslu myndarinnar
og franska táknmálið í henni er í raun vitlaust. Svo er það nýjasta myndin, Me
Before You, en Tabú, hópur íslenskra fatlaðra kvenna, hefur gefið út yfirlýsingu
um hana. Í yfirlýsingunni fordæmir Tabú myndina og kemur með nokkrar ástæður
hvers vegna. Í sem stystu máli telur Tabú myndina vera niðurdrepandi fyrir
annað fatlað fólk, skaða ímynd þess, koma með ranghugmyndir og síðast en ekki
síst er leikarinn ófatlaður. Yfirlýsinguna má sjá HÉR.
Þegar
grúskað er í sögu bandarískra kvikmynda kemur í ljós að aðeins ein fötluð
leikkona hefur hlotið Óskarinn. Sú leikkona heitir Marlee Matlin og hlaut
Óskarsverðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki 1986 fyrir leik sinn í
kvikmyndinni Children of a Lesser God. Matlin er bandarísk döff leikkona, en
leiklistarlíf döff þarna úti er mjög öflugt og þar má m.a. finna heilu
leikhúsin fyrir döff. Nýleg rannsókn sem gerð var af Ruderman Family Foundation
hefur leitt í ljós að 95% fatlaðra persóna í bandarísku sjónvarpi eru leiknar
af ófötluðu fólki. Þess má geta að fatlað fólk byrjaði ekki að leika birtast í
bandarísku sjónvarpi fyrr en á sjöunda áratug síðustu aldar. Má þar nefna Geri
Jewell, en hún skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún lék í þáttunum Facts of
Life 1980 – 1984. Geri er ekki aðeins gamanleikkona heldur líka baráttukona,
enda er hún fyrsta manneskjan með CP til að verða leikari í USA og þurfti að
hafa mikið fyrir því að ná takmarki sínu. Einnig er vert að nefna leikarann
Chris Burke, sem er með Downs-heilkenni. Fyrsta alvöru hlutverk Burke í
bandarísku sjónvarpi var í þáttunum Desperate 1987. Hann stóð sig svo vel við
að leika persónuna Charles „Corky“ Thacher að framleiðendurnir ákváðu að
gera þætti með Corky í aðalhlutverki.
Þættirnir heita Life Goes On, og eru þetta fyrstu heilu seríurnar þar sem
aðalpersónan er með Downs-heilkenni.
Við
ættum kannski að líta aðeins á ástæður þess að fatlað fólk fær ekki að leika
fatlað fólk. Þær eru í raun margvíslegar, en ég ætla að láta nægja að telja upp
nokkur atriði sem ég tel afar áreiðanlegar:
- Fatlað fólk fær oft ekki þá aðstoð sem það þarf og það hamlar þátttöku þeirra í samfélaginu og skerðir möguleikana á að lifa sjálfstæðu lífi.
- Samfélagið veit minna en það ætti að vita um fötlun, sem leiðir til fáfræði, fordóma og ableisma.
- Fötluð börn eru oft send í sérskóla þar sem þau læra ekki það sama og ófötluð börn, og léleg menntun bitnar á framtíðartækifærum þeirra. Sumir telja að sérkennsla fyrir fötluð börn þar sem þau læra ekki það sama og jafnaldrar sínir sé liðin tíð, en þessir sérskólar fyrirfinnast samt enn og fólk er enn að láta sér detta allskonar kennsluaðferðir í hug sem eru mjög vafasamar.
- Persónan í myndinni/þættinum er ekki fötluð allan sögutímann (léleg afsökun sem því miður er frekar algeng. Til hvers eru annars áhættuleikarar?)
Geri
Jewell hlaut einmitt lélega menntun í æsku og hóf feril sinn á að nýta reynslu
sína og fötlun til að búa til show. Fólk hefði
mögulega ekki tekið eftir henni ef hún hefði ekki byrjað á því að gera
grín að sjálfri sér fyrir það sem hún er. Í einföldu máli: hún nýtti sér
staðalímyndir fatlaðs fólks og fáfræði annarra til að koma sér áfram, sem sýnir
glöggt stöðu fatlaðs fólks sem vill komast inn í þennan bransa. Geri hefur
sjálf sagt í viðtali að ýmislegt hafi breyst til hins betra síðan hún hóf feril
sinn sem leikkona, en samt er enn langt
í land. Einnig sagði hún að það að vera fötluð leikkona er bæði jákvætt og
neikvætt. Hún fær hlutverk vegna þess að hún er fötluð eða henni er hafnað af
sömu ástæðu. Frekari upplýsingar má nálgast HÉR.
Þegar
öllu er á botninn hvolft eru myndirnar sem ég nefndi í byrjun þessarar greinar
á frekar gráu svæði. Á meðan ófatlað fólk lofsyngur þær situr fatlaða fólkið
heima hjá sér og nagar á sér handarbökin yfir að hafa ekki fengið þetta
hlutverk. Sambíóin auglýstu á sínum tíma Me Before You sem gamanmynd og samt
þarf fatlaða fólkið að ná sér í tissjú eða róandi lyf þegar það sér myndina,
döff vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið þegar það sér bullmálið í La Famille
Bélier og fatlaðir Glee-aðdáendur missa allt álit á þáttunum þegar Artie hættir
ekki að væla yfir því að vera í hjólastól. Allt út af fáfræði annarra, smávægis
hindrunum og lélegu kerfi. Reyndar lítur út fyrir að hlutirnir séu að breytast,
t.d. var fatlaður maður látinn leika fatlaða persónu í Breaking Bad, sem er
skref í rétta átt. En nú er ný mynd á leiðinni sem heitir Blind, og þar leikur
einmitt ófatlaður maður blindan mann. Árið er 2017 og sumt fólk er enn með það
fast í hausnum að fötlun er bara búningur.
Ummæli
Skrifa ummæli