Smá um umhirðu húðar


Ég hef oft fengið að heyra það hvað ég er með fallega húð. Fólk spyr mig jafnvel hvernig ég fari að því að vera með svona fallega húð. Ég veit ekki alveg hvernig fólk skilgreinir fallega húð, það gæti verið slétt húð, húð með engar bólur, þurrkubletti eða húð sem er ekki mislituð. Ég fæ nú samt bólur og af og til þurrkubletti, en ég hef þó vanið mig á að passa vel upp á húðina. Þegar ég var táningur var ég með frekar slæma húð og þurfti að nota lyfseðilsskylt krem við því, en það er víst bara eðlilegt að vera með slæma húð á þessum aldri. Einnig var ég með stöðugt exem á höndunum sem barn og það þarf enn lítið til að húðin þar fari úr jafnvægi. Ég ákvað því að skella í stutta bloggfærslu og svara spurningum fólks um hvernig ég hugsa um húðina mína, vonandi hjálpar það einhverjum.

Það skal tekið strax fram að ég er ekki snyrtifræðingur, en ég hef mikinn áhuga á svona hlutum. Það gæti líka vel verið að ég sé bara heppin með húð, en mér finnst ólíklegt að það sé eina ástæðan.

Hreinlæti

Númer eitt, tvö og þrjú í umhirðu húðar hjá mér er hreinlæti. Ég þríf húðina kannski bara einu sinni á dag eða þegar ég fer í sturtu. Þegar ég fer á æfingu vil ég helst komast í sturtu sem fyrst eftir á, annars enda ég með slatta af fílapenslum. Þegar ég mála mig þríf ég húðina alltaf fyrst, og þríf farðann svo af áður en ég fer að sofa. Ég nota Micellar rósavatn og Art deco augnfarðahreinsi þegar ég þríf farðann af, og enda svo á að strjúka yfir allt saman með blautum þvottapoka.

Rakakrem

Hvaða snillingur fann upp á rakakremi???

Ég var raunar lengi að finna rétta rakakremið fyrir mig. Við erum víst með allskonar húð, og mín húð þolir illa olíu. Ég fékk oft bólur þegar ég notaði rakakrem, sem á ekki að gerast. Eftir að hafa að lokum rætt við snyrtifræðing komst ég loks að því að ég þyrfti krem án olíu, helst lífrænt. Ég nota Biothern rakakrem, og á einnig maska í sömu línu. Ég set á mig rakakrem eftir að ég hef þrifið andlitið, og set það að minnsta kosti einu sinni á dag þó að ég gleymi því stundum.

Maskar

Ég elska að dekra við sjálfa mig og setja á mig maska. Ég set Biothern maskann á mig einu sinni í viku, en hann hreinsar húðina og fjarlægir dauðar húðfrumur svo hún verður fersk og falleg eftir á. Ég nota maskann í raun eins og skrúbb.

Annars dýrka ég líka peel-off maskana frá Iroha sem fást til dæmis í Hagkaup. Ég hef prófað allskonar Peel-off, en flestir þeirra reyndust vera algjört rusl fyrir húðina. En þessir frá Iroha eru algjör snilld og ég set þá á mig af og til þegar ég nenni. Eitt það besta sem ég geri er að fara í langa sturtu og enda svo á dekri, með maska og kremi. Ég  set alltaf rakakrem eftir á, enda lokar það svitaholunum og gefur húðinni raka.

Sólarvarnir

Þegar ég fer til sólarlanda passa ég alltaf upp á að taka með mér sólarvarnir í tveimur styrkleikum, án olíu. Ég tek líka oft með mér After sun og Aloevera, til að geta bjargað mér ef ég brenn og líka til að fá fallegri lit. Ég man samt ekki alltaf eftir að setja á mig sólarvörn og þá er um að gera að grípa Aloe vera og bera á.

Mataræði og hreyfing

Það er ekki vísindalega sannað að matur hafi áhrif á bólur, en hollur matur og regluleg hreyfing eykur vellíðan líkamlega og andlega. Ég fer á Crossfit-æfingar svona þrisvar í viku, stundum oftar, en ég er reyndar ekki beint á mjög heilbrigðu mataræði. Ég reyni þó að miða við að borða nammi og sveittan skyndibita einu sinni til tvisvar í viku og lágmarka sykurmagn í matnum sem ég borða. Þegar ég borða yfir mig af ruslfæði og sykri fer húðin í fokk og ég má sætta mig við stórar hvítar og rauðar bólur í nokkra daga á eftir. Það er líka mælt með því að drekka mikið vatn, meðal annars fyrir húðina. Ég er kannski ekki duglegasta manneskjan í vatnsdrykkju, en ég reyni þó að muna eftir að minnsta kosti einum stórum brúsa af vatni á dag, sem oft verða að tveimur eða þremur.

Hárþvottur

Það skiptir líka miklu máli hvernig hárið er þvegið, enda kemur sítt hár við húðina. Ég þríf mitt hár annan hvern dagog nota oftast náttúrulegt sjampó frá Aveda. Það hefur komið fyrir að ég noti sjampó sem innihalda mikið af gerviefnum og öðru drasli og þá hefur húðin í andlitinu orðið óvenju þurr, enda skolast sjampóið yfir það.

Annað

Það er kjaftæði að kókosolía sé besta sápan. Kókosolía inniheldur stórar fitusýrur og harðnar í kulda sem stíflar húðina. Þegar fólk þrífur húðina einungis með kókosolíu og gerir það oft, þá fer kókosolían að hafa þveröfug áhrif. Það  er hins vegar ekki svo vitlaust að bera á sig olíu af og til, ég set til dæmis á mig argan olíu svona tvisvar sinnum í mánuði til einu sinni í viku. Argan olía er vítamínsrík, mýkir húðina og svo er hægt að fá allskonar góða lykt. Það er fínt úrval af olíu í til dæmis  The Body Shop. Olían þarf samt ekkert að vera eitthvað rándýrt dót, til dæmis gæti ólívuolía vel dugað.


Annars vil ég minna á að við erum með  allskonar húð og því eru þarfir okkar mismunandi. Ef þig langar til að fá fallega húð þá mæli ég með því að staldra við og hugsa: Hvernig er húðin mín? Hvað geri ég fyrir húðina mína?
Stundum er nóg að breyta einu smáatriði, til dæmis rakakremi, en stundum ekki. Kannski er sniðugt að spjalla við snyrtifræðing, það allavega hjálpaði mér heilmikið. Ef húðin er mjög slæm þá er spurning um að kíkja til húðlæknis, kannsk er það ekki svo vitlaus hugmynd.

Munum að umhirða húðar er langtímaskuldbinding, það gerist ekkert bara einn, tveir og nú!

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Grunnskólaárin sem í móðu #GameOver

Crossfit-æfingar fyrir sitjandi fólk

Umræðan um starfsgetumat: Ef þú getur gert 9 armbeygjur áttu að vinna 90% starf