Allir geta sungið!




Ég hef verið mikill aðdáandi Eurovision frá því ég man eftir mér. Ár eftir ár hef ég blastað keppninni í sjónvarpinu, öðru heimilisfólki til mikillar mæðu, spáð og spekúlerað og einu sinni farið alla leið til Bakú til að sjá keppnina.

Slauga akandi um Bakú í Eurovision-bífreið. 


Satt að se gja hef ég þó haft nóg annað að gera síðustu tvö ár en að fylgjast með Eurovision, en það þýðir samt ekki að áhuginn sé að fjara út. Í ár fékk ég loks tíma til að fylgjast ögn með Söngvakeppninni, og ég held að ég hafi aldrei verið með jafn mikinn valkvíða og einmitt nú. Ég reyndi samt bara einu sinni að kjósa, en eftir að atkvæðið komst ekki til skila ákvað ég að spara símareikninginn og láta aðra um að liggja á símanum. Það var alveg gott og blessað, enda gat ég eiginlega ekki valið á milli Dags og Ara.

Það ætti að taka það fram strax að ég er mjög virk manneskja sem þarf alltaf að hafa meira en nóg að gera. Eftir að úrslitin voru tilkynnt sat ég því eftir í sófanum og hugsaði með mér hvað ég hlakkaði til að sjá táknmálsþýðingu á laginu, enda textinn mjög þéttur og skrautlegur. En af eigin raun vissi ég að það gæti orðið löng bið eftir þýðingunni og þannig kviknaði sú hugmynd að þýða lagið bara sjálf. Af hverju ekki?

Ég er reyndar alls ekki vön söngkona. Ég elska tónlist en er ég eins laglaus og hugsast getur. Eina skiptið sem mér hefur verið hrósað fyrir góðan söng var þegar ég sat aftast í rútu á ferð um Svíþjóð. Þá tók ég upp á því að gala Bahama-eyjar, klukkan varla orðin níu að morgni, og Svíarnir í rútunni voru alveg dolfallnir. Enda skildu þeir ekki íslensku eða þekktu lagið, og þanníg tókst mér að þykjast kunna að syngja. En Íslendingarnir sem sátu við hliðina á mér voru reyndar í hláturskasti allan tímann og eru enn að rifja upp þetta uppátæki og hve ,,vel“ ég söng fyrir þreyttu Svíana.

Sem sagt, ég er hræðileg söngkona þegar kemur að raddmáli. Hins vegar hef ég litla sem enga reynslu af táknmálssöng, en sá í hendi mér að þar gæti ég orðið eitthvað annað en hávær hani á priki. Ég er nefnilega heyrnarlaus, og íslenskt táknmál er mitt annað mál á eftir íslensku. Um leið og hugmyndin kviknaði setti ég mig því í samband viðl konu sem ég þekkti og hafði mikla reynslu sem táknmálssöngkona. Já, ég bara sendi skilaboð á þessa leið: „Hæ, ég ætla að þýða nýja júrólagið, nenniru hjálpa mér?“

Fyrr en varði var ég búin að túlka lagið yfir á alþjóðlegt táknmál og að gera alla vitlausa á heimilnu (eina ferðina enn) með því að spila Our Choice mjög hátt aftur og aftur og aftur. Þegar ég var að æfa sönginn í svona hundraðasta skipti segir eitt af heimilisfólkinu: „Nú veit ég hvað þetta lag minnir mig á; Lion King!“

Nei okei, best að fara að taka þetta upp áður en hitt fólkið missir endanlega vitið...

Fyrsta tilraun misheppnaðist heldur betur. Ég var sífellt að missa athyglina, ruglast á línum og svo átti ég engan þrífót þannig að myndbandið skalf og var skakkt. Svo ekki sé minnst á að það var bara einn staður á heimilinu þar sem var næði og ágætis birta, en þar var þessi fjandans skápur í bakgrunninum sem eyðilagði alveg heildarmyndina.

Ég ætlaði samt ekki að gefast strax upp  og fékk því nokkra snillinga til að hjálpa mér. Okkur tókst að redda þrífót, selfie-stick og teipi sem við gátum fest saman ásamt símanun mínum, og svo drifum við okkur niður í Ellíðarárdal. Við vorum mjög heppin með veður enda sólríkur mánudagur, en við þurftum þó að leita lengi að hinum fullkomna tökustað. Fyrir utan það að flest trén voru nakin og dauð þá komst hjólastóllinn ekki alls staðar að. Á endanum ákváðum við að henda okkur bara beint í djúpu laugina og fara í torfæruleiðangur inn í skóginn, þar sem við fundum loks draumastaðinn.
 
Bak við tjöldin í Ellíðarárdal
Þá kom næsti skellur; ég heyrði ekki nógu vel í laginu sem spilað var í öðrum síma (það þurfti alls þrjá síma í verkið, einn til að taka upp, einn til að spila lagið og einn með textanum). Ég er nefnilega með heyrnartæki á öðru eyra og heyri alveg eitthvað, en hljóðeinangrunin þarna úti var svo léleg að ég heyrði bara bergmál af laginu. Fyrst reyndum við að leysa þetta með því að teipa símann fastan á bakið á mér, eins nálægt eyranu og við þorðum. Þetta entist ekki lengi, því mér tókst að henda honum af mér í öllum látunum. Á endanum ákvað vinkona mín að syngja lagið fyrir mig, nógu hátt til að ég heyrði. Þannig náði ég loksins að syngja lagið almennilega, þarna í lynginu úti í skógi á sólskinsdegi með allt heimagerða tökudótið og frábæra teymið mitt.

Má ég kynna táknmálsútgáfuna af framlagi Íslands í Eurovision 2018, Our Choice, í boði Slaugu Slamm!



Ummæli

  1. Þetta er frábært hjá þér Áslaug og sýnir vel hvað þú ert ótrúlega öflug og tilbúin til að leggja mikið á þig til að elta draumana þína.
    Kv. Hulda Ragnheiður

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Grunnskólaárin sem í móðu #GameOver

Crossfit-æfingar fyrir sitjandi fólk

Umræðan um starfsgetumat: Ef þú getur gert 9 armbeygjur áttu að vinna 90% starf