Íslenskar almenningssamgöngur frá bæjardyrum öryrkjans



„Er lest á Íslandi? Ha? Afhverju ekki? Hvernig komist þið eiginlega á milli staða?“

Þessum spurningum hef ég oft þurft að svara þegar  norrænir vinir mínir fara að velta íslenskum samgöngum fyrir sér. Í fyrsta skipti sem ég fékk svona dembu yfir mig vissi ég  ekki hvaðan á mig stóð veðrið, enda hafði ég aldrei leitt hugann að þessu. Ég greip því til þess ráðs að skálda upp svör og komast þannig undan frekari spurningum, enda góð í að bulla. Svar mitt var á þá leið að lest mengar mikið, eyðileggur náttúrufegurðina auk þess sem við Íslendingar hefðum ýmsa aðra samgöngukosti. En síðan þá hef ég nokkrum sinnum fengið sambærilegar spurningar og því oft velt þessu fyrir mér og reynt að mynda mér einhverja skoðun.
            Ég veit í raun ekkert um það hve mikið lest mengar, en ég fékk hugmyndina að því að hún væri mengandi frá gamaldags lestum sem t.d. má finna í teiknimyndasögunum um Lukku-Láka, en þær eru knúnar áfram með kolum sem eldsneyti. En ég reikna með að kolalestir séu liðin tíð, eins og klunnalegu lestirnar sem voru fylltar með nautgripum á leið til slátrunar. Einnig má velta því fyrir sér hvort einkabílar séu eitthvað betri en lest. Íslenskar fjölskyldur eiga gjarnan fleiri en eina bífreið, sem er augljóslega of mikið. Venjulegar bífreiðar ganga fyrir eldsneyti eins og lest, svo hvort er betra að hafa mörg þúsund einkabífreiðar akandi um vegi landsins eða eina lest?
            Staðhæfing mín um að lest muni eyðileggja landslagið var kannski ekki alveg út í bláinn. Til að hafa lest þarf að leggja lestarteina, eins og það þarf vegi til að aka bílum. Náttúruverndarsinnar myndu eflaust hafa sterkar skoðanir á því hvort rétt væri að leggja teina um landið, en spurningin er hvort teinarnir eigi eftir að eyðileggja eins mikið og sumir myndu halda eða hvort Íslendingum er einfaldlega of annt um íslenska náttúru?
            Síðasta svarið sem ég kom upp með reyndist við nánari skoðun nokkuð rökrétt. Á Íslandi höfum við hjól, bíla, flugvélar, skip, hesta og síðast en ekki síst strætó. Á meðan Danir taka lest á milli bæja, t.d. frá Köben til Odense, taka Íslendingar strætó frá Reykjavík til Akureyrar. Líkt og lestin er strætó almenningssamgöngur, þó að hann gangi ef til vill hægar en lest. En Ísland er margfalt stærri en Danmörk, svo afhverju erum við ekki með lest til að spara tíma?
            En ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa grein er ekki einungis til að velta þessum spurningum fyrir mér fram og til baka heldur einnig að rýna aðeins í samgöngukerfi Íslands  frá bæjardyrum öryrkjans. Svo er mál með vexti að ég gerði mér ekki grein fyrir mikilvægi almenningssamganga fyrr en ég varð allt í einu bíllaus í heilt ár. Skyndilega stóð ég frammi fyrir þeirri spurningu hvernig ég ætti að komast í skólann og hvað væri ódýrast í stöðunni, enda örorkubæturnar ekki svo miklar. Það sem hindraði mig var að ég er með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og notast við hjólastól, svo það voru ekki margir möguleikar í boði fyrir mig. Ég get hjólað og á meira að segja flott tveggja manna hjól, en vandamálið er að það þarf tvo einstaklinga til að koma því áfram, þar af einn með fulla sjón sem auk þess er í nógu góðu formi til að stýra hjólinu og halda tveimur á því. Svo kemst hjólastóllinn ekki með hjólinu, þannig að ef ég ætlaði að hjóla í skólann þyrfti ég augljóslega að hjóla inn í hann og alla leið í tíma ef ég ætlaði á annað borð að komast í hann. Ég gat líka rúllað á hjólastólnum í skólann með aðstoð, en ég hafði mestar áhyggjur af því að það færi að snjóa og ég yrði veðurteppt. Svo var það gamli góði strætó. Sumir strætisvagnar hafa ágætt aðgengi með ramp upp í vagninn, en ég veit þó sjaldan ef ég kemst í hinn eða þennan vagninn þar sem þeir hafa ekki allir ramp né eru merktir sérstaklega sem aðgengilegir fyrir hjólastóla eða barnavagna. Auk þess eru engar festingar fyrir stólinn minn svo í hvert sinn sem ég tek strætó er ég með lífið í lúkunum og á fullt í fanginu með að reyna að forða stólnum frá því að veltast um koll. Hann er auðvitað settur í bremsu, en jafnvel bremsa dugar ekki gegn kraftinum í akandi strætó. Svo vænsti möguleikinn fyrir mig í stöðunni sem bíllausum öryrkja var að taka leigubíl. Sem félagsmaður Blindrafélagsins fæ ég afslátt þar, en þó þarf ég alltaf að borga eins og allt annað. Ég vissi að ég gæti tekið ferðaþjónustu fatlaðra, eins og ég gerði þegar ég var yngri, en ég var ekki alveg á því, sérstaklega eftir að ég gleymdist einu sinni í skólanum. En þyrfti ég sérstakan bíl ef ég gæti tekið strætó eins og allt annað fólk? Eina vandamálið er að samfélagið gerir ekki ráð fyrir mér, og þess vegna á ég í raun ekki mikinn kost á því að lifa grænum lífsstíl og nota strætó.

            En hvað um það, hvert svo sem svarið við spurningunni um hvers vegna það sé engin lest á Íslandi kann að vera, er þó augljóst að Ísland þarf að fara að endurskoða almenningssamgöngur. Nú á tímum er fólk orðið meðvitaðri um mengun og vaxandi gróðurhúsaáhrif og margir eru meira að segja farnir að reyna að bæta úr þessu. Enn er langt í land, flokkun sorps er ekki alls staðar, enn er ekið um á bensínknúnum bífreiðum og enn er eiturefni á borð við BPT að finna í plasti. En í mínum augum er helsti þyrnirinn líklega sá að ekki er gert ráð fyrir öllum. Það þarf aö huga að minnihlutahópum á borð við öryrkja, eldri borgara og jafnvel börn. Hér ætti að vera gott tækifæri til nýsköpunar, og ég spyr því bara, hverju höfum við að tapa?

Ummæli

  1. Fín grein Áslaug Ýr, alltaf gott að velta hlutunum fyrir sér á málefnalegann hátt eins og þú gerir.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Grunnskólaárin sem í móðu #GameOver

Crossfit-æfingar fyrir sitjandi fólk

Umræðan um starfsgetumat: Ef þú getur gert 9 armbeygjur áttu að vinna 90% starf