Smá um umhirðu húðar

Ég hef oft fengið að heyra það hvað ég er með fallega húð. Fólk spyr mig jafnvel hvernig ég fari að því að vera með svona fallega húð. Ég veit ekki alveg hvernig fólk skilgreinir fallega húð, það gæti verið slétt húð, húð með engar bólur, þurrkubletti eða húð sem er ekki mislituð. Ég fæ nú samt bólur og af og til þurrkubletti, en ég hef þó vanið mig á að passa vel upp á húðina. Þegar ég var táningur var ég með frekar slæma húð og þurfti að nota lyfseðilsskylt krem við því, en það er víst bara eðlilegt að vera með slæma húð á þessum aldri. Einnig var ég með stöðugt exem á höndunum sem barn og það þarf enn lítið til að húðin þar fari úr jafnvægi. Ég ákvað því að skella í stutta bloggfærslu og svara spurningum fólks um hvernig ég hugsa um húðina mína, vonandi hjálpar það einhverjum. Það skal tekið strax fram að ég er ekki snyrtifræðingur, en ég hef mikinn áhuga á svona hlutum. Það gæti líka vel verið að ég sé bara heppin með húð, en mér finnst ólíklegt að það sé eina ástæðan. ...